Íbúafjölgun á Akureyri ein sú mesta frá upphafi

default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV
Mikill viðsnúningur hefur orðið í mannfjöldaþróun í Akureyrarbæ á þessu ári miðað við síðustu ár. Það sem af er þessu ári hefur bæjarbúum fjölgað um nærri 300 og ef fram fer sem horfið gæti fjölgunin í ár orðið sú þriðja mesta frá upphafi.

Fyrsta september voru íbúar Akureyrarbæjar 19.495, samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá. Frá áramótum hefur íbúum þar fjölgað um 275. Akureyri nálgast því smám saman hið langþráða 20.000 íbúa mark.

Bæjarbúum fjölgaði um 190 í fyrra

Þótt íbúafjölgun á Akureyri hafi almennt verið nokkuð stöðug í gegnum árin er fjölgunin hæg og undir landsmeðaltali. Ef fjölgunin síðasta áratug er skoðuð þá skar 2017 sig úr, en það ár fjölgaði um 310 manns. 2018 fjölgaði um 120 og fjölgunin var 110 manns árið 2019. Í fyrra fjölgaði bæjarbúum svo um 190. Ef fjölgunin á Akureyri út þetta ár verður sú sama og það sem af er, gæti fjölgað á milli þrjú og fjögurhundruð manns og þá tekur Akureyri vænan vaxtarkipp.

Árið 2021 gæti komist í verðlaunasæti

Mesta fjölgun í Akureyrarbæ frá upphafi var árið 2007 þegar íbúum fjölgaði um 483. Árið 1950 er í öðru sæti með fjölgun upp á 435 og þriðja besta árið er 1930, þegar íbúum á Akureyri fjölgaði um 353. Árið 2021 gæti því komist í verðlaunasæti ef þróunin, það sem af er ári, heldur áfram.