Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vill búa til hvata til að draga úr ríkisútgjöldum

07.09.2021 - 20:03
Mynd: RÚV / RÚV
Með því að lofa að greiða almenningi afgang úr ríkissjóði, ef einhver verður, vill Miðflokkurinn búa til hvata fyrir stjórnmálafólk til að draga úr ríkisútgjöldum. 

„Stjórnmálamönnum hefur ekki tekist, nema með fáeinum undantekningum að reka ríkissjóð almennilega, spara. Í staðinn stækkar bara báknið og stækkar og á móti eru skattar hækkaðir, gjöld á almenning. Og með þessu fyrirkomulagi er alveg ljóst að stjórnmálamenn munu, í hvert sinn sem þeir leggja fram fjárlög, þurfa að standa frammi fyrir almenningi og útskýra hvers vegna þeim hafi ekki tekist að skila afgangi af ríkissjóði og hvers vegna menn fái ekkert fyrir vikið í sinn hlut,“ segir Sigmundur Davíð.

Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Sigmund í Forystusætinu á RÚV í kvöld, en viðtalið má í heild sjá í spilaranum hér að ofan.

Á næstu dögum og vikum verður rætt við formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði fyrir alþingiskosningarnar 25. september. Röðun þeirra var dregin af handahófi. Ítarlega umfjöllun um kosningarnar má finna á kosningavef RÚV, ruv.is/x21.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV