Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

39 kvótaflóttamenn til landsins næstu tvo daga

07.09.2021 - 20:22
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Von er á rúmlega sjötíu kvótaflóttamönnum til landsins á næstunni. Fólkið átti að koma á síðasta ári en för þess til landsins hefur tafist vegna heimsfaraldursins. Þrjátíu og níu kvótaflóttamenn koma til landsins á morgun og fimmtudag Fólkið er frá Sýrlandi og hefur för þess til Íslands tafist vegna heimsfaraldursins. Á næstunni kemur svipaður fjöldi til viðbótar frá ýmsum löndum. Fólkið hefði átt að koma til Íslands á síðasta ári en kemst fyrst nú.

Tvær fjölskyldur til viðbótar koma næstu vikur en för þeirra tefst þar sem fjölskyldusamsetningin hefur breyst frá því sem var þegar farið var yfir þeirra mál upphaflega. Einnig er von á sex manns til viðbótar frá Sýrlandi og tveimur frá fílabeinsströndinni. 12. október er von á tuttugu manns frá Íran og nokkru síðar kvótaflóttamönnum frá Kenýa.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir komu fólksins meðal annars hafa tafist vegna heimsfaraldursins.
„Þessi hópur mun líka fara inn í þetta samræmda móttökukerfi og fá bæði samfélagsfræðslu og íslenskukennslu og þetta nýja pörunarkerfi við sveitarfélögin sem að taka á móti þeim svo að þetta eru svona fyrstu hóparnir sem fara í gegnum þá breyttu móttöku eftir að hún var tekin upp."

Fjölskyldurnar fara í samræmda móttöku, hjá Árborg, Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri. Starfsfólk Fjölmenningarsetursins, ásamt Rauða krossinum á Íslandi, taka á móti fjölskyldunum á flugvellinum og fara með þær á Farsóttahótel í sóttkví áður en fólkið heldur til síns sveitarfélags.
Kvótaflóttafólk þessa árs kemur svo fljótlega til landsins að sögn félagsmálaráðherra og áfram er reynt að greiða götu flóttafólks frá Afganistan hingað.
 

 

.
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir