Víða góð berjaspretta — „Þetta er tilgangur lífsins"

06.09.2021 - 13:50
Innlent · Náttúra · Ber · Berjamó · Bláber · Norðurland
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Einstaklega góð berjaspretta er nú víða á Norður- og Austurlandi. Berjaáhugamaður, segist hafa fundið tilgang lífsins í berjamó og hvetur fólk til að drífa sig úr sófanum og út í móa.

Gott að geta gleymt sér algjörlega

Berjatímabilið er nú fullum gangi. Tíðarfar hefur eins og gefur að skilja mikið að segja um hvar best er að fara í berjamó og svo virðist sem Norður- og Austurland hafi vinninginn þetta árið. Sigurður Vignir, Sigurðarson, berjaáhugamaður kom sér vel fyrir í Víkurskarðinu við Eyjafjörð í síðustu viku.  „Ég held að maður komist næst upprunanum með því að vera bara hér. Lífið er ekkert merkilegra en þetta, vera hér og tína ber. Þetta er bara lífið, þetta er tilgangur lífsins, að vera bara eins og kindurnar og fuglarnir og gleyma sér algjörlega," segir Sigurður. 

Sjá einnig: Berjabláar brekkur víða á landinu

Hvetur alla til að kíkja í berjamó

Sigurður hvetur landsmenn til að drífa sig af stað. „Ef þú ert heima í sófanum að glíma við þunglyndi, þá bara út að tína ber eða bara vera úti í náttúrunni almennt myndi ég segja."

Fersk ber með rjóma alltaf best

Eyfirðingurinn Hulda Jónsdóttir hefur stundað berjatínslu víða á Norðurlandi í áratugi og man vart viðlíka sprettu. Hulda gerir hlaup, sultur og saft úr berjum handa allri fjölskyldunni. „Það jafnast þó ekkert á við fersk ber með rjóma. Þetta er náttúrlega búið að vera alveg dásamlegt sko. Mjög góð sérstaklega bláberjauppskeran, hún er búin að vera engu lík," segir Hulda.  

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Hulda M. Jónsdóttir