Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um þúsund smit rakin til hópsmitsins á Bankastræti Club

06.09.2021 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, vill fara varlega í afléttingar og segir að einhverjar takmarkanir verði líklega í gildi innanlands þar til faraldurinn hefur verið kveðinn niður erlendis. Hann segir að rúmlega þúsund smit hafi verið rekin til hópsmits á skemmtistaðnum Bankastræti Club í sumar.

Alls greindust 26 með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af voru tíu utan sóttkvíar. Þórólfur segir að sér lítist nokkuð vel á stöðuna, þrátt fyrir að nærri þrettán hundruð og fimmtíu séu í sóttkví.

„Það eru margir í sóttkví og nú er þetta aðeins öðruvísi en var fyrir helgi. Aldurssamsetningin er aðeins að breytast. Meðalaldurinn er hærri en hann var,“ segir hann.

Þórólfur segist ekki geta sagt hvar fólk hefur helst verið að smitast að undanförnu. „Ég er ekki að fylgjast með því mjög nákvæmlega hvar fólk er að smitast. Við vitum hins vegar að í raðgreiningunni þá erum við ennþá að eiga við þessa staði sem upphaflega komu þessari bylgju af stað, til dæmis þessari sem hefur verið kennd við Bankastræti Club. Það eru rúmlega þúsund manns sem hafa greinst með þá tegund,“ segir hann.

Þórólfur segir að fara þurfi varlega í tilslakanir en núverandi reglugerð um takmörkun á samkomum gildir til og með 17. september. „Við þurfum að hafa góða stjórn á landamærunum og við þurfum örugglega að hafa einhverjar takmarkanir innanlands á meðan þessi faraldur er í gangi erlendis. Ég tala nú ekki um að við þurfum að vera vel vakandi fyrir nýjum afbrigðum sem kunna að koma upp og valda einhverjum breytingum á sjúkdómsmynstrinu,“ segir hann.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV