Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Slakað á reglum í stærstum hluta Nýja Sjálands

epa09444664 New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern speaks during a press conference at New Zealand Parliament in Auckland, New Zealand, 03 September 2021. A Sri Lankan national who had been living in New Zealand for 10 years, stabbed and injured six people at an Auckland supermarket.  EPA-EFE/ROBERT KITCHIN / POOL NO ARCHIVING
 Mynd: EPA-EFE - AAP/STUFF POOL
Slakað verður á útgöngubanni og öðrum samkomutakmörkunum á Nýja Sjálandi í vikunni. Strangar reglur gilda þó áfram í Auckland, stærstu borg landsins.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, kynnti þessar nýju reglur í morgun.

Því verður hátt í þremur milljónum Nýsjálendinga ekki lengur gert skylt að halda sig heima og skólar hefja starfsemi sína að nýju á fimmtudaginn. Það er í fyrsta sinn um þriggja vikna skeið sem nemendur  fá að mæta í skólann. 

Strangar reglur gilda þó áfram í Auckland hið minnsta viku til viðbótar en þar hófst yfirstandandi bylgja faraldursins í síðasta mánuði. Ekki hefur enn náðst að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar í borginni þar sem búa tvær milljónir manna. 

Þar sem Delta-afbrigðið geisar í borginni segir Ardern ekki tímabært að slaka á reglum þar en vel hafi gengið að draga úr nýjum smitum annars staðar í landinu. Verkinu sé þó ekki lokið. 

Nú fer stærstur hluti Nýja Sjálands niður á annað stig af fjórum í sóttvarnareglum landsins. Það þýðir að samkomur eru takmarkaðar við fimmtíu manns og grímuskylda er enn í gildi. 

Í ágúst hafði Nýja Sjálandi verið nánast án smita í hálft ár, en landið var allt að því alveg lokað fólki frá öðrum löndum um margra mánaða skeið.