Rannsaka stresshormón hvala með aðstoð dróna

06.09.2021 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Sarah Arndt
Vísindamenn rannsaka þessa dagana hvaða hvaða áhrif hvalaskoðunarbátar hafa á hvali á Skjálfanda við Húsavík. Sýni sem tekin eru úr blæstri þeirra eru talin geta sýnt fram á hvort hvalir verði stressaðir í nálægð bátanna.

Hafa tekið sýni í allt sumar

Það eru náttúruverndarsamtökin Whale Wise, í samstarfi við Háskólasetrið á Húsavík sem hafa haldið utan um rannsóknina en þetta er í fyrsta skipti sem rannsókn sem þessi er gerð við strendur Íslands. Marianne Rasmussen er forstöðukona rannsóknarsetursins. „Það er Tome Grove sem er með Whale Wise sem er búinn að gera þetta. Þetta er doktorsverkefni hans. Þeir eru búnir að taka sýni í allt sumar til að skoða hvernig heilsan er hjá Hnúfubaknum," segir Marianne.

Sjá einnig: Erlendir ferðamenn skila sér aftur í hvalaskoðun

Dróninn grípur sýni úr fráblæstri

Rannsóknin fer þannig fram að dróna er flogið yfir hvali þegar þeir eru í nálægð við hvalaskoðunarbáta. Dróninn er svo nýttur til að grípa sýni úr fráblæstri hvalanna. Úr þeim má greina hormón til að kanna hvort þeir upplifi stress þegar hvalaskoðunarbátar koma nálægt. Hún segir að þó þetta sé ný aðferð þá hafi áhrif báta á hvali verið rannsökuð áður með því að fylgjast með hegðun hvala. Þær rannsóknir sýndu fram á minni háttar áhrif. 

Ertu bjartsýn á að þessi rannsókn geti leitt eitthvað í ljós varðandi það hvort að hvalirnir finni fyrir stressi í kringum bátana?

„Ég veit ekki hvað kemur út úr þessu en ég held að það verði kannski bara svipað og hin rannsóknin."