Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Leggja til að Akureyri verði „svæðisborg“

06.09.2021 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Starfshópur, sem skipaður var til að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni, leggur til að Akureyri verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur.

Starfshópurinn var skipaður í október 2020 og afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrslu um verkefnið í dag.

Lagt er til að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Skýrslan var kynnt á fundi á Akureyri i dag

Akureyri verði þannig sérstakt byggðastig milli höfuðborgarinnar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðinni og fái því bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. „Þetta nýja byggðastig mun auk hefðbundinna hlutverka stærri þéttbýliskjarna bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar," segir í skýrslunni.

„Skýrslan slær að þessu leyti nýjan tón í umræðu um byggðamál á Íslandi og skorar á hólm þá stefnu að á Íslandi sé aðeins ein erkiborg eða eitt erkiborgarsvæði og síðan landsbyggð með smærri þéttbýliskjörnum, sem hver um sig nær ekki að búa til borgarsamfélag af því tagi sem eftirspurn er eftir. Með því að byggja upp annað borgarsvæði dreifist byggð í landinu og búseta á áhrifasvæði borgarinnar eflist, rétt eins og fólk þekkir frá höfuðborgarsvæðinu."