Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vill viðræður við Talibana um brottflutning fólks

05.09.2021 - 16:43
epa07620438 German Chancellor Angela Merkel arrives for a press statement at the party's headquarters after the resignation of the Social Democratic Party (SPD) chairwoman Andrea Nahles in Berlin, Germany, 02 June 2019. The SPD chairwoman and faction leader in the German parliament Bundestag, Andrea Nahles, announced today her resignation from both positions.  EPA-EFE/FELIPE TRUEBA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kallaði í dag eftir viðræðum þýskra stjórnvalda við Talibana í Afganistan til að hægt verði að koma fleirum frá landinu. Talibanar tóku völdin í landinu um miðjan ágúst og er búist við að þeir kynni ríkisstjórn sína fljótlega.

„Við verðum einfaldlega að ræða við Talibana um það hvernig við getum komið fólki, sem vann fyrir Þjóðverja, úr landinu og í öryggi,“ sagði kanslarinn á fundi með fréttamönnum í Norður-Vestfalíu í Þýskalandi í dag. Hún vill koma fleirum úr landi sem störfuðu fyrir þýsk stjórnvöld. Allir sem unnu fyrir erlend ríki og stofnanir eru taldir í bráðri hættu.

Afganir hafa lýst því yfir að þeir verði umburðarlyndari en þegar þeir voru síðast við völd og konur voru sviptar nær öllum réttindum. Þó er talið ólíklegt að það verði einhverjar konur í ríkisstjórn Talibana.

Bandaríkjaher og bandamenn fóru frá Afganistan í lok ágúst. Stuttu áður tókst Talibönum að koma afgönsku ríkisstjórninni frá og hrifsa til sín völdin. Mikill mannfjöldi var við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl síðustu dagana og komust þúsundir úr landi. Þó er ljóst að enn eru margir í Afganistan í hættu undir stjórn Talibana. 

Talibanar berjast enn við uppreisnarmenn og leifar fyrrum stjórnarhersins í Panjshir-dal, sem er eina landsvæðið sem þeir hafa ekki náð á sitt vald. Uppreisnarmenn segjast vera búnir að umkringja um 1.500 hermenn Talibana í dalnum og halda þeim föngnum. Þeir segja jafnframt að yfir þúsund hermenn úr röðum Talíbana hafa þegar fallið í átökunum.