Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Venesúela: samkomulag virðist að hluta í höfn

Mynd með færslu
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. Mynd:
Útlit er fyrir að samkomulag sé að nást að hluta til í viðræðum stjórnvalda og stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Það virðist þó nokkuð málum blandið.

Ekkert liggur enn fyrir um eðli samkomulagsins sem AFP-fréttaveitan hefur eftir háttsettum embættismanni að sé að hluta í höfn. Hins vegar segir fulltrúi stjórnarandstöðunnar ekkert samkomulag hafa náðst enn. 

Formlegar viðræður hófust um miðjan ágúst til þess að ljúka djúpri pólitískri og efnahagslegri kreppu í landinu.

Stjórnarandstaðan leggur ríka áherslu á að efnt verði til frjálsra sveitastjórnakosninga í haust en stjórn Nicholas Maduro vill að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn landinu verði aflétt.  

Efnt var til viðræðnanna með milligöngu Norðmanna sem fengu Mexíkóstjórn til þess að hýsa þær en ágreiningur hefur ríkti í landinu allt frá því að Maduro var kjörinn forseti fyrir átta árum. 

Samninganefndirnar lögðu upp með sjö atriði sem semja þyrfti um, en afsögn Maduros er ekki þar á meðal en stjórnarandstaðan sakar hann um að hafa beitt brögðum við endurkjör árið 2018.