Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skaftárhlaup í rénun

05.09.2021 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hlaup hófst úr Eystri-Skaftárkatlinum um klukkan tíu á laugardagskvöld en því var spáð að það yrði svipað að stærð og hlaupið 2018. GPS tæki er ofan við Eystri ketilinn og því gátu sérfræðingar veðurstofunnar greint frá því snemma að hlaup væri hafið. Almannavarnir lýstu stuttu síðar yfir hættustigi vegna hlaupsins.

 

Hlaup hófst í Vestari-Skaftárkatlinum á miðvikudaginn en þau eru jafnan mun minni en úr þeim eystri. Rennsli hefur farið minnkandi en náði hámarki á miðnætti annan september og var þá um 520 rúmmetar á sekúndu. Talið er víst að þetta hlaup verði mun stærra. 

Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá Almannavörnum, sagði vatnsmagn í Eystri katlinum svipað og 2018 og því gæti hlaupið nú orðið svipað að stærð og þá. Björn segir að sérfræðingar Veðurstofu og fleiri hafi fundað í morgun og niðurstaða þess fundar var sú að það lægi á að koma tilkynningum um hlaup til íbúa á svæðinu, þá gæti bændur og aðrir sem þekkja til gert þær ráðstafanir sem þurfi að gera til forða tjóni eins og kostur er.  

Búist er við að hlaupið nú verði svipað að stærð og 2018. Það hlaup var nokkuð stórt, vatn flæddi yfir þjóðveg 1 við Eldhraun í Skaftárhreppi og framburður var mikill. Það var þó ekki með stærstu hlaupum en það náði snemma hámarki, en rennslið við Sveinstind mældist mest um einum og hálfum sólarhring eftir að hlaupið hófst. 

Skaftárhlaupum geta fylgt ýmsar hættur. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi, sprungur munu myndast í kringum ketilinn og því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri, og sömuleiðis jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið. Þá berst brennisteinsvetni með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals.