
Heimsækir vettvanga hryðjuverkaárásanna 11. september
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Biden og Jill, eiginkona hans, verða viðstödd minningarathafnir næstkomandi laugardag í New York þar sem tvíburaturnarnir svokölluðu, World Trade Center, hrundu eftir að tveimur farþegaþotum var flogið á þá.
Einnig fara þau til Shanksville í Somerset-sýslu í Pennsylvaníu þar sem þota United-flugfélagsins, flug 93 hrapaði til jarðar og að Pentagon, byggingu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna í Arlington-sýslu í Virginíu-ríki.
Nærri þrjú þúsund manns fórust í árásunum sem leiddu af sér stríðið gegn hryðjuverkum og innrás í Afganistan þar sem ríkisstjórn Talibana var hrakin frá völdum.
Bundinn var endir á tuttugu ára stríðsþátttöku Bandaríkjamanna þar í landi nú í ágústlok.
Biden lýsti því yfir á föstudaginn var að hann hyggðist opinbera trúnaðargögn tengd hryðjuverkaárásunum eftir hávært ákall aðstandenda hinna látnu um gagnsæi. Yfir sextán hundruð manns hvöttu forsetann til að hunsa minningarathafnirnar uns ríkið opinberaði rannsóknargögnin.