Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Heilt yfir hefur staðan batnað mjög mikið”

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Yfirlæknir COVID-göngudeildar Landspítalans býst við afléttingum takmarkana í takt við þróun faraldursins sem er á niðurleið. Skimanir með hraðprófum hefjast við Suðurlandsbraut á næstunni. Fjórða bylgja faraldursins er í rénun og allt á réttri leið. Smitum, innlögnum og alvarlegum veikindum fækkar.

„Það er miklu minna um alvarleg veikindi. Og ef við horfum á göngudeildina þá hafa komið mun færri til mats og meðferðar síðustu daga. Þannig að þetta er allt í rétta átt. Þessi bylgja sem skall nokkuð harkalega á okkur í júlí, er í rénun. Og við höfum séð svipaða þróun í öðrum löndum.” 
- Runólfur Pálsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar LSH

Færri smit og fleiri í sóttkví

Frá 29. júlí til 4. ágúst greindust 808 með Covid á Íslandi, 490 utan sóttkvíar. Hlutfall bólusettra sem smituðust var 65 prósent.  Sé þetta borið saman við nýliðna viku sjást töluverðar breytingar. Frá 29. ágúst til 4. september, sömuleiðis sjö daga tímabil, greindust 364 með Covid-19, rúmlega 150 utan sóttkvíar. 40 prósent voru bólusett. 

„Ég tel nú liklegt að það verði aflétt upp að einhverju marki þeim takmörkunum sem hafa verið hjá okkur undanfarið. Heilt yfir hefur staðan batnað mjög mikið. Ég tel líklegt að við getum haldið samfélaginu gangandi í miklu meira mæli en verið hefur.”

Heilsugæslan er búin að panta mörg hundruð þúsund hraðpróf til að geta skimað fólk í hópum fyrir stóra viðburði og vegna smitgátar skólabarna. Prófin koma til landsins á næstu dögum. 

Bólusetningarnar færast frá Suðurlandsbraut í lok næstu viku og húsnæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verður þá breytt í eins konar hraðskimunarstöð, þar sem fólk getur komið og látið skima sig fyrir Covid-19 hratt og örugglega. Neikvæð niðurstaða gildir í tvo sólarhringa, en fái fólk jákvætt úr hraðprófi þarf að taka PCR próf til að sannreyna niðurstöðuna.