Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grannt fylgst með landrisi við Öskju

DCIM\106GOPRO
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Veðurstofa Íslands fylgist nú grannt með þróun mála við Öskju. Samfelldar GPS mælingar og gervitunglagögn sýna að þensla hófst þar í byrjun ágúst.

Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns nálægt Ólafsgígum nærri GPS stöð sem sýnir nú landris upp á um það bil fimm sentimetra á mánuði.

Reglulega mælast skjálftar við Öskju en hún er virk eldstöð sem gaus seinast árið 1961. Allt frá árinu 1983 hefur mælst landsig um sem nemur einum sentímetra á ári þar til nú.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að ekki sé alveg ljóst hvað valdi þenslunni nú en skýringarinnar sé helst að leita í innflæði kviku. Þar segir einnig að oft sýni eldfjöll lotubundna virkni. 

Þá liggi þau í einskonar dvala með lítilli virkni árum og áratugum saman en inn á milli komi virknitímabil sem fylgir þensla, jarðskjálftar og jarðhiti. Engin leið sé að segja til um það fyrirfram hvernig slík virknitímabil þróist, en algengast er að þeim ljúki án þess að til eldgoss komi.