Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki má bæta á vanlíðan þolenda

04.09.2021 - 15:05
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands. - Mynd: kvan.is / kvan.is
Mikilvægt er að gera fortíðina upp varðandi þau ofbeldismál sem hafa verið í umræðunni tengd KSÍ, að mati Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, fyrrum íþróttakonu- og þjálfara. Hún segir að eitruð menning sé ekki bara innan KSÍ heldur víðar í samfélaginu, líka meðal ungra drengja á sparkvöllum víða um landið. 

„Mér finnst þetta vera stærra en bara KSÍ, mér finnst þetta líka vera félögin, aðrar íþróttir og bara samfélagið í heild,“ sagði Vanda í viðtali í Vikulokunum á Rás 2 í morgun. Hún segir málin flókin að nú sé dauðafæri og tækifæri til að gera betur, láta þessar hörmungar verða til góðs.  

„Við megum ekki bæta á vanlíðan þolenda, sem er alveg nóg fyrir. Þau eru í kjallaranum, í hyldýpinu eiginlega og við þurfum einhvern veginn, og þá er ég að tala um sem samfélag, sem heild, ekki bara KSÍ, við þurfum einhvern veginn að finna leiðir til þess að bæta ekki ofan á þá vanlíðan sem er nú þegar fyrir og frekar reyna að hjálpa þeim upp,“ segir Vanda.

Bylgja sem felldi heila stofnun 

Pétur Marteinsson, fyrrum fótboltamaður, var einnig gestur Vikulokanna í morgun. Hann segir brot sem þessi mikið samfélagsmein. Bylgjur, sem sú sem nú hafi risið, hafi til dæmis áður náð til leikhúsanna en að hann telji að þetta sé í fyrsta sinn sem slík bylgja felli heila stofnun og á Pétur þar við afsögn formanns og stjórnar KSÍ. Sambandið hafi alltaf verið mjög karlæg stofnun og árangur kvennaliða á Íslandi stórkostlegur í þeim mótvindi sem hafi alltaf blásið. 

Mynd með færslu
Pétur Marteinsson, fyrrum atvinnumaður í fótbolta.  Mynd: Eddi - RÚV

„Ég held að við karlmenn sem erum aldir upp í þessari menningu, finnist svolítið óþægilegt að segja þessi orð; að trúa þolendum, styðja þolendur en það er bara eitthvað sem við þurfum að gera. Það hefur aldrei verið gert,“ segir Pétur. Kominn sé tími til karlar leggi við hlustir og trúi þolendum. 

Eitruð menning meðal stráka á sparkvöllum 

Vanda segir að KSÍ hafi bætt sig mikið þegar komi að jafnréttismálum á síðustu árum en að miklu meira þurfi til. Hún kveðst hafa séð eitraða menningu á sparkvöllum um landið allt. „Þar sem að litlir strákar setja sig á hærri hest eða eru settir þangað, það er eitthvað svo flott að vera góður í fótbolta. Þetta birtist í ljótu orðbragði og ofbeldi á sparkvöllum út um allt land þannig að þess vegna segi ég að þetta sé ekki bara KSÍ. Ég skil að umræðan hafi verið þar en það er ekki nóg og ég er sannfærð um að KSÍ eigi eftir að taka til.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Knattspyrnusambandið hefur síðustu vikur verið sakað um að bregðast ekki við ábendingum um ofbeldi og kynferðisbrot af hálfu núverandi og fyrrverandi leikmanna karlalandsliðsins. Í lok síðustu viku sagði Guðni Bergsson, formaður sambandsins, að ekki hefðu borist tilkynningar um ofbeldi. Næsta dag greindi Þórhildur Gyða Arnarsdóttir frá því að leikmaður landsliðsins hafi beitt hana ofbeldi árið 2017 og að KSÍ vissi af málinu. Guðni sagði af sér og stjórnin í kjölfarið. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, er komin í leyfi. Kolbeinn Sigþórsson var tekinn úr leikmannahópnum eftir að málið kom upp. Jóhanna Helga Jensdóttir, vinkona Þórhildar, hefur einnig greint frá ofbeldi sem Kolbeinn beitti hana. Á sínum tíma náðu þau sáttum og Kolbeinn greiddi þeim þrjár milljónir í miskabætur. Síðar sagði hann í yfirlýsingu að hegðun hans hafi ekki verið til fyrirmyndar en að hann hafi ekki beitt Þórhildi Gyðu og Jóhönnu Helgu ofbeldi eða áreitt þær.

Annar tveggja lögmanna sem gættu hagsmuna Kolbeins Sigþórssonar vegna ofbeldismálanna hafnar því í yfirlýsingu til fjölmiðla í morgun að Kolbeinn hafi boðið tveimur konum sem kærðu hann 300.000 króna greiðslu gegn þögn þeirra um málið, eins og önnur kvennanna fullyrti í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld. Lögmaðurinn, Almar Möller, lætur texta úr tölvupósti fylgja yfirlýsingu sinni og segir hann frá réttargæslumanni konunnar, þar sem sá stingur upp á 300.000 króna bótagreiðslu. Það hafi þó ekki gengið eftir og að Kolbeinn hafi á endanum borgað þeim og Stígamótum samtals sex milljónir, og segir Almar þá fjárhæð í engu samræmi við atvik málsins. IFK Gautaborg, lið Kolbeins í Svíþjóð, setti Kolbein í gær til hliðar á meðan mál hans væru til frekari skoðunar.