Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir engar heimildir um kosningasvindl

áslaug arna dómsmálaráðherra um stafræn ökuskírteini
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Dómsmálaráðherra segist ekki vita til þess að reynt hafi verið að svindla í kosningum með notkun stafrænna ökuskírteina. Í úttekt öryggisfyrirtækis eru alvarlegir öryggisbrestir í skírteinunum sagðir opna á kosningasvindl.

Stafrænu ökuskírteinin sem gefin voru út í fyrra fá falleinkunn í öryggisúttekt upplýsingatæknifyrirtækisins Syndis. Það er sagt auðvelt að falsa útlit þeirra í jafnvel einföldustu myndvinnsluforritum og tölvulæsir geta með hjálp forrita sem aðgengileg eru á netinu látið fölsuð skírteini líta nákvæmlega út eins og ófölsuð.

Gátu fyrst sannreynt í vikunni

Fölsuð skilríki opna ýmsar dyr sem annars stæðu lokaðar, til að mynda til að komast inn á skemmtistaði eða kaupa áfengi. En Syndis bendir einnig á þann möguleika að hægt hafi verið að falsa stafræn skilríki til að stunda kosningasvindl. „Við höfum engar heimildir um slíkt og það er auðvitað bara eins með þessi skilríki og önnur að það er hægt að reyna að falsa þau,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst 13. ágúst en það var ekki fyrr en á allra síðustu dögum sem kjörstjórnir fengu í hendur skanna, sem tengdur er við gagnagrunn hins opinbera, til að sannreyna gildi stafrænna ökuskírteina.

Framkvæmdastjóri Stafræns Íslands segir að sömu lögmál gildi um stafræn skírteini og öll önnur skírteini. Þannig hafi ekki verið sérstök ástæða til að skanna gömlu skírteinin. „Heldur er treyst á það að fólk, að það standi sig, að það sé ekki að fremja lögbrot þrátt fyrir að alltaf sé einhver möguleiki fyrir hendi á því að falsa hvort sem þar er um að ræða plast, pappír eða stafrænt skírteini,“ segir Andri Heiðar Kristinsson.

Fyrirtæki halda að sér höndum

Mörg fyrirtæki, apótek, skemmtistaðir og fleiri, hafa ekki tekið stafrænu skírteinin gild, meðal annars vegna þess hversu erfitt er að sannreyna þau. Ráðherra segir að lögreglan og sýslumenn hafi haft skannana sem kjörstjórnir hafa nú undir höndum en stefnt sé að koma þeim í almenna dreifingu. „Þannig að fólk geti sannreynt, hvort sem það er við áfengissölu eða apótek, sjálft þessi stafrænu ökuskírteini,“ segir Áslaug Arna.

Óánægður með aðferðir Syndis

Auk þess að fara hörðum orðum um öryggi skírteinanna gagnrýnir Syndis innleiðingu þeirra harðlega, hún hafi einfaldlega verið mislukkuð.  Andri Heiðar fer ekki í grafgötur með að hann er óánægður með aðferðir fyrirtækisins, sérstaklega í ljósi þess að Stafrænt Ísland hafði ráðið fyrirtækið til þess að gera öryggisúttekt. „Það að samstarfsaðili okkar sem við höfum verið að vinna náið með og fylgt leiðbeiningum frá, við höfum greitt þeim fyrir þessa vinnu, að þeir komi fram með þessum hætti og í rauninni að öryggisfyrirtæki beinlínis reyni að kenna fólki að brjóta lög með því að falsa skírteini, það tel ég ekki rétt.“