Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rifu niður plaköt eftir slæma dóma

Mynd: Lights on the Highway / Lights on the Highway

Rifu niður plaköt eftir slæma dóma

03.09.2021 - 10:54

Höfundar

Þrátt fyrir vinsældir Amanita Muscaria með Lights on the Highway voru sumir gagnrýnendur ekki miklir aðdáendur. Verslanir treystu oft algjörlega á orð gagnrýnenda þannig að plaköt af hljómsveitinni voru rifin niður eftir að slæmur dómur birtist.

Hljómsveitin Lights on the Highway var stofnuð 2003 en hana skipta Kristófer Jensson, Agnar Eldberg Kofoed Hansen, Karl Daði Lúðvíksson og Þórhallur Reynir Stefánsson. Fyrsta platan kom út árið 2005 og er samnefnd hljómsveitinni. Fjórum árum síðar kom svo platan Amanita Muscaria en hún var til umfjöllunar í þættinum Geymt en ekki gleymt á Rás 2 þar sem Kristófer og Agnar fóru yfir feril Lights on the Highway.

Það voru þeir Kristófer og Agnar sem stofnuðu hljómsveitina á sínum tíma en þeir höfðu þá þekkst í 10 ár. Kristófer hafði þá lánað Agnari plötu sem Agnar gleymdi alltaf að skila. Platan, og vanskil hennar, urðu til þess að þeir töluðu alltaf saman þegar þeir hittust í stærri hópi og voru fljótlega farnir að tala um að búa til tónlist saman.

Þegar hljómsveitin varð loksins að veruleika hafði Agnar samið nokkur lög á gítarinn og vildi fá Kristófer með sér til að radda. Þarna var Agnar að prufa sig áfram á kassagítar eftir að hafa einbeitt sér að þungarokki árin á undan. Hann vissi að Kristófer væri góður söngvari og fannst því tilvalið að fá hann með sér í þetta nýja verkefni, þrátt fyrir að draumur Kristófers hafi ekki verið að syngja. „Ég ætlaði aldrei að verða söngvari. Ég ætlaði alltaf að vera gítarleikari, en ég var bara aldrei nógu góður á gítar,” segir Kristófer sem segist þó vera mjög góður á luftgítar. 

Byggt á handriti frá David Lynch

Eitt vinsælasta lag plötunnar er A Little Bit of Everything en þeir gáfu jafnframt út tónlistarmyndband við lagið. Myndbandið var þó ekki þeirra hugmynd. „Það myndband gerði einhver franskur gaur í Barselóna. Hann gerði myndband eftir handriti sem var skrifað af David Lynch. Hann gerði teiknimyndband sem er mjög áhugavert og vel í það lagt,” segir Kristófer. Leikstjórinn, Julien-Nicolas, bað um leyfi til að nota lagið í myndbandsverkefni sem hann var að gera og segja strákarnir að þarna hefðu allir grætt. Hann fékk að nota lagið í verkefnið sitt og þeir fengu tónlistarmyndband frá honum. 

Rifu niður plaköt

Þegar að platan Amanita Muscaria kom út fékk hún góðar viðtökur aðdáenda en einhverjir gagnrýnendur voru ekki jafn hrifnir af gripnum. „Við höfum ekki átt upp á pallborðið hjá gagnrýnendaelítunni, það skiptir kannski ekki máli. Þetta eru bara skoðanir,” segir Kristófer en viðurkennir þó að einhverjir gagnrýnendur höfðu talsvert vægi á þessum árum. „Ég veit til þess að einhverjir innkaupastjórar hjá verslunum vildu ekki kaupa fleiri eintök af plötunni vegna þess að hún fékk svo lélega dóma. Þar var það farið,” segir Kristófer.

Helst var það gagnrýni sem birtist á blaðsíðum Morgunblaðsins sem kom þeim í vandræði. „Það var Morgunblaðið. Það var einhver snillingur þar sem sagði að við hljómuðum eins og Doobie Brothers og Eagles,” segir Agnar. 

Gagnrýnin varð ekki aðeins til þess að einhverjar verslanir pöntuðu færri eintök en ætla mátti heldur voru líka stór plaköt af hljómsveitinni tekin niður. „Ég man að ég var svo sáttur að sjá svona stórt plakat. Svo nokkrum dögum seinna kom þessi dómur út og allt var rifið niður,” segir Agnar.

Upphaflega hafði Lights on the Highway gert útgáfusamning við fyrirtækið Dennis og þar kom fyrsta platan út. Þeir riftu svo samningnum og sömdu við lítið útgáfufyrirtæki sem hét Krummi og gáfu plötuna nær alfarið út sjálfir. Gagnrýnin og áhrif hennar gátu því komið illa við hljómsveitina. „Þetta var svolítið högg,” segir Kristófer. „Það var pínu erfitt fyrir okkur að standa í stappi með eitthvað svona. Við höfðum ekkert vægi inn í þessum verslunum, við vorum bara einhver Dúddi Mæjó,” bætir Kristófer við. 

Þeir voru þó ekki mikið að stressa sig á umsögnum gagnrýnenda og segjast geta hlegið að þessu jafn mikið í dag og þeir gerðu þá. „En þetta var hellingur af peningum,” segir Agnar.

Tónleikar framundan

Gagnrýni var því ekki ofarlega í huga þeirra og heldur ekki umtal um hljómsveitina. Þeir hugsuðu fyrst og fremst um hvort fólk myndi vilja mæta á tónleika hljómsveitarinnar. „Við vorum bara að pæla í hvort það kæmu nógu margir að horfa okkur á tónleikum. Við vorum ekkert uppteknir af því að fólk væri að tala um hljómsveitina. Við fundum alveg meðbyr og annað. Við höfðum ekki hugmynd um hvort fólk hefði yfir höfuð heyrt í okkur. Við vorum að fá kannski 100 manns á tónleika á þessum tíma,” segir Kristófer.

Hljómsveitin kom síðast fram á tónleikum árið 2018 en mögulega verður breyting á því fljótlega. „Þarf samt að vera réttur staður, rétt stund og réttar sóttvarnaraðgerðir,” segir Kristófer. Þeir eru því ekki spenntir að halda tónleika þar sem áhorfendur þurfa að gæta að fjarlægðartakmörkunum. „Við verðum að geta verið með fólk pakkað saman,” segir Agnar.

Nánar var rætt við Agnar og Kristófer í þættinum Geymt en ekki gleymt sem var á dagskrá Rásar 2.