Nú er hægt að senda lög í Söngvakeppnina 2022

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Nú er hægt að senda lög í Söngvakeppnina 2022

03.09.2021 - 09:55

Höfundar

RÚV hefur staðfest þátttöku Íslands í Eurovision sem verður á Ítalíu árið 2022, heimalandi hljómsveitarinnar Måneskin. Nú er biðlað til lagahöfunda að setja saman lög til að taka þátt í Söngvakeppninni, sem haldin verður í febrúar á næsta ári.

Senn líður að Söngvakeppninni árlegu, sem ákveðið hefur verið að halda í febrúar á næsta ári. Þá kemur í ljós hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision 2022 og fylgir eftir lagi Daða og Gagnamagnsins sem náði glæsilegum árangri og hafnaði í 4. sæti í keppninni í Rotterdam í Hollandi.

Eurovisionlög Daða, Think about things og 10 years, hafa notið gífurlegra vinsælda og fengið yfir 110 milljón spilanir á Spotify og um 40 milljón á Youtube. Nú er hægt að senda inn lög í Söngvakeppnina 2022.

Tíu lög komast í keppnina og verða þau valin með sama hætti og áður. Öllum gefst kostur á að senda inn lög sem sérstök valnefnd, skipuð fulltrúum FTT, FÍH og RÚV, gefur umsögn um. Einnig verður leitað til reyndra og vinsælla lagahöfunda um að semja nokkur laganna. Á síðustu árum hafa erlendar stórstjörnur úr Eurovision heiminum troðið upp í Höllinni á úrslitakvöldinu, Eleni Foureira, Alexander Rybak, Loreen, Robin Bengtsson, Måns Zelmerlöw og fleiri. Á því verður engin breyting í ár.

Allir geta sótt um að taka þátt á vefsíðu keppninnar.

Söngvakeppnin snýst um fjölbreytni og allar tónlistartegundir eru velkomnar. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti miðvikudaginn 6. október nk. Í janúar á næsta ári verður svo tilkynnt hvaða lög taka þátt í þessum stærsta sjónvarpsviðburði ársins.