Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hryðjuverkaárás í verslanamiðstöð á Nýja Sjálandi

epa08401784 (FILE) - New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern attends a press conference with Australian Prime Minister Scott Morrison (not pictured) at Admiralty House in Sydney, Australia, 28 February 2020 (reissued 05 May 2020). According to media reports, Australia and New Zealand discussed on 05 May about introducing a trans-Tasman bubble to allow travel between the two countries. The plan was set in motion after Ardern reportedly stressed out that the New Zealand border will be closed for a long time, amid the ongoing coronavirus pandemic.  EPA-EFE/BIANCA DE MARCHI  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands. Mynd: EPA-EFE - AAP
Maður sem talinn er hallur undir hugmyndafræði hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki réðist að og særði sex í verslanamiðstöð í Auckland í Nýja Sjálandi í morgun. Lögregla skaut árásarmanninn til bana.

Frá þessu er greint á vef New Zealand Herald. Árásarmaðurinn var vopnaður hnífi og náði að stinga og særa sex manns áður en lögregla skaut hann. Þrír eru alvarlega særðir en allir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að maðurinn sé ættaður frá Sri Lanka og hafi flust til Nýja Sjálands árið 2011. Hann er sagður hafa gengið inn í verslunarmiðstöðina óvopnaður en gripið hníf úr útstillingu verslunar og ráðist að fólki að því er virðist af handahófi. 

Fólk flýði í ofboði og reyndi að komast út úr miðstöðinni þegar árásin hófst. Jacinda Ardern forsætisráðherra segir verknaðinn vera hryðjuverk en árásarmaðurinn var undir stöðugu eftirliti lögreglu frá árinu 2016.

Í yfirlýsingu segir Ardern verkaðinn vera fyrirlitlegan, framinn af einstaklingi í helgreipum hugmyndafræði sem ætti sér engan stuðning í samfélaginu. Hún kvaðst annars lítið geta sagt um manninn opinberlega. 

Andrew Coster lögreglustjóri segir yfirvöld þess fullviss að enginn hafi verið í vitorði með manninum og því vofi engin hætta lengur yfir samfélaginu.

Versta hryðjuverkaárás í sögu Nýja Sjálands var framin í mars 2019 þegar öfgamaður réðist inn í mosku í Christchurch og myrti 51 múslíma og særði 40 til viðbótar. 

Fréttin var uppfærð klukkan 6:17.