Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forysta Jafnaðarmanna í Þýskalandi eykst

Mynd: EPA-EFE / EPA
Ný skoðanakönnun um fylgi flokka í Þýskalandi bendir til þess að Jafnaðarmenn njóti mest fylgis meðal kjósenda fyrir kosningarnar 26. september. Samkvæmt þessari nýju könnun styðja 25 prósetnt kjósenda Jafnaðarmannaflokkinn SPD. 20,5 prósent styðja bandalag kristilegu flokkanna, CDU/CSU, og 16 Græningja.

Marktækur munur á fylgi SPD og CDU/CSU

Könnun í síðustu viku gaf til kynna að Jafnaðarmenn væru komnir fram út kristilegum í fyrsta sinn í 15 ár, en nýja könnunin bendir til að munurinn á tveimur stærstu flokkum Þýskalands hafi aukist og sé orðinn marktækur.

Laschet gengur illa, Scholz er yfirvegaður

Armin Laschet, kanslaraefni kristilegra demókrata, þykir ekki hafa staðið sig nægilega vel í kosningabaráttunni á meðan Olaf Scholz, kanslaraefni Jafnaðarmanna, hefur ekki enn orðið neitt á. Hann hefur þótt yfirvegaður og um margt minna á Angelu Merkel, fráfarandi kanslara. Það þykir henni ekki skynsamlegur samanburður og bendir á að öfugt við Olaf Scholz hefði aldrei hvarflað að henni stjórnarsamstarf við Vinstri-flokkinn Die Linke.

Kanslaraefnin skipta miklu í kosningabaráttunni

Kosningabaráttan hefur snúist að óvenju miklu leyti um kanslaraefnin en venjulega hafa Þjóðverjar meira látið stuðning við flokka ráða vali sínu. Olaf Scholz ber höfuð og herðar yfir keppinauta sína sem yfirlýst kanslaraefni, þau Laschet og Annalenu Baerbock, sem Græningjar tefla fram. 43 prósent kjósenda vilja Scholz í stól kanslara, 16 prósent Laschet og 12 prósent Baerbock.

Ekki sirkusstjóri

Helstu keppinautarnir, Jafnaðarmenn og kristilegir, hafa setið saman í samsteypustjórn síðastliðin átta ár og Scholz er varakanslari og fjármálaráðherra. Þar hefur hann þótt traustur en frekar óspennandi. Sjálfur segir hann það kost, verið sé að kjósa til þings, ekki velja sirkusstjóra. 

Laschet kynnir teymi framtíðarinnar

Armin Laschet segir að Kristilegir verði nú að standa saman sem einn og vissulega getur margt gerst á þeim rúmlega þremur vikum sem eru til kosninga. Spurning er hvort Laschet og kristilegum takist að ná vopnum sínum. Hann kynnti í morgun hóp frambjóðenda, fjórar konur og fjóra karlmenn, sem hann kallaði teymi framtíðarinnar. Fréttaskýrandi Deutsche Welle sagði að Laschet hefði verið áberandi taugaóstyrkur. Það kann vart góðri lukku að stýra.