Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Það er ekki eitt - heldur allt“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Kona sem bíður niðurstaðna úr skimun fyrir brjóstakrabbameini segir slæmt að bíða í óvissu. Hún er ein af tólf hundruð konum sem nú bíða niðurstaðna sinna. Ekki hefur verið lesið úr brjóstamyndum á Landspítala síðan í júlí vegna læknaskorts.

Gígja Þórðardóttir fór í skimun fyrir brjóstakrabbameini á Landspítala í byrjun ágúst. Samkvæmt gæðaviðmiðum á að lesa úr myndum úr skimuninni innan tíu daga, en það hefur ekki verið gert í rúman mánuð vegna skorts á röngtenlæknum og nú bíða um tólf hundruð konur eftir niðurstöðum.

Landspítalinn hefur nú samið við danskt fyrirtæki um að lesa úr myndunum og Maríanna Garðarsdóttir, sviðsstjóri á rannsóknarsviði spítalans, sagði í hádegisfréttum útvarps að vonast væri til að hægt yrði að svara öllum konunum á næstu vikum.

Hún sagði þar að þessi töf væri ekki gott innlegg í þá umræðu sem verið hefur um krabbameinsskimanir undanfarna mánuði og Gígja tekur undir það. „Við höfum stært okkur af því að vera svolítið framarlega í þessum málum, sem betur fer. En svo, eftir fréttir gærdagsins, setur maður svolítið spurningamerki við þetta og segir; hvert erum við komin? Nú er búið að vera, síðastliðið ár. gríðarleg umfjöllun um vanrækslu í heilsueftirliti kvenna og þetta var enn einn naglinn í líkkistuna, ef svo má að orði komast. Og mér finnst þetta bara rosalega slæmt að heyra af þessum mistökum sem eru innan kerfisins og maður spyr sig: hvar er ég stödd? Hvenær fæ ég niðurstöður?“

Erfitt að bíða í óvissu

Gígja segist ekki hafa fengið neinar skýringar á töfunum aðrar en komið hafa fram í fjölmiðlum.

„Það er saga um krabbamein, bæði í fjölskyldunni hjá mér og ég hef sjálf fengið góðkynja æxli víða um líkamann. Þannig að maður er ekkert settur í sérstaklega góða stöðu, að þurfa að bíða svona í óvissu.“

Gígja segir að þessi bið sýni í hversu slæmum farvegi skimanir kvenna séu.

„Þetta síðasta ár er búið að vera eiginlega sprenghlægilegt og gríðarlega sorglegt á sama tíma. Ég held að ef ég þyrfti að bíða aðeins lengur, þá væri það ekkert stórmál nema í ljósi alls sem á undan er gengið. Það er eiginlega það sem er stóra málið í þessu. Það er ekki eitt, það er allt einhvern veginn,“ segir Gígja.