Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mikilvægt að uppræta nauðgunarmenningu

02.09.2021 - 18:19
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, sem gagnrýndi á föstudag formann KSÍ fyrir að segja í Kastljósi að engar tilkynningar hefðu borist um kynferðisbrot landsliðsmanna, tók þátt í samstöðufundi fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í dag. Hún segir mikilvægt að sýna öðrum þolendum stuðning. Hún er bjartsýn á að málin horfi til betri vegar. „Þetta hefur áhrif á alla fótboltamenninguna í landinu okkar og auðvitað viljum við að hún sé góð og hún sé ekki uppfull af einhverri nauðgunarmenningu eða gerandameðvirkni.“

„Ég er hér til þess að sýna stuðning og samstöðu með öðrum þolendum fyrrum eða núverandi landsliðsmanna af því að samstaðan er gífurlega mikilvæg, að maður finni fyrir því að þú sért ekki einn í heiminum og það sé fólk sem standi við bakið á þér. Það er það sem ég er búin að upplifa síðustu daga. Það gefur svo mikið að finna að maður er ekki einn,“ sagði Þórhildur Gyða um klukkan fimm í dag í viðtali við Magnús Geir Eyjólfsson fréttamann RÚV. 

Þórhildur vakti mikla athygli í viðtali við RÚV á föstudag þar sem hún sagði frá brotum landsliðsmanns á hendur sér og gagnrýndi þáverandi formann KSÍ. 

Sástu fyrir þér að þetta viðtal sem þú fórst í að það hefði þær afleiðingar sem það hafði?

„Alls ekki.  Ég bjóst aldrei við því að þetta myndi áorka því sem það hefur gert. Ég á náttúrulega ekki ein þátt í því. Það er náttúrulega Hanna Björg sem eru búin að vera að tala löngu áður en ég steig fram. Þær eru mjög margar sem eru búnar að berjast fyrir því sem hefur nú áorkast. Þannig að ég ætla ekki ein að taka heiðurinn af þessu,“ segir Þórhildur.

Bindur þú vonir við að aðgerðirnar sem KSÍ hefur boðað að þær skili árangri?

„Já, auðvitað vonast ég til að þetta skili árangri. Þetta er náttúrulega knattspyrnusamband landsins. Þetta hefur áhrif á alla fótboltamenninguna í landinu okkar og auðvitað viljum við að hún sé góð og hún sé ekki uppfull af einhverri nauðgunarmenningu eða gerandameðvirkni. Það gjörsamlega þarf að fara í róttækar breytingar til þess að uppræta það,“ segir Þórhildur.