Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heimilisofbeldi kann að stigmagnast hraðar en áður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hátt í fimmhundruð og áttatíu tilkynningar um heimilisofbeldi bárust lögreglu á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er um hundrað og tuttugu fleiri en á sama tíma árið 2019. Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu sjö árum og á fyrri helmingi þessa árs hefur verið tilkynnt um fjórðungi fleiri tilvik en að meðaltali á fyrrii hluta síðustu fimm ára.

Ofbeldi af hálfu maka langalgengast

Langflestar tilkynningarnar snúa að heimilisofbeldi af hálfu maka eða fyrrum maka. Á tímabilinu frá janúar til júní á þessu ári bárust 240 tilkynningar um ofbeldi maka, tæpum þrjátíu prósentum fleiri en að meðaltali síðustu fimm ár. Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs ríkislögreglustjóra, segir atvinnuleysi og aukna áfengissölu kunna að spila inn í. 

„Þetta eru þættir sem eru þekktir fyrir að valda álagi innan fjölskyldna sem síðar geta leitt til ofbeldis í framhaldinu,“ segir hún.

Þróast jafnvel hraðar yfir í líkamlegt ofbeldi

Rannveig telur að áhrif faraldursins á heimilisofbeldi komi líklega skýrar fram með tímanum.

„Fólk er meira heima, kannski er líka þannig að fyrir þá sem hafa búið við ofbeldi þegar ástandið breytist svona, þá hafa möguleikarnir til að leita sér aðstoðar minnkað og þá getur kannski ofbeldið stigmagnast hraðar og afleiðingarnar komið skýrar fram. Það er þekkt með heimilisofbeldi að þetta er ákveðið ferli sem fer frá stjórnun yfir í andlegt ofbeldi og svo líkamlegt ofbeldi, og mögulega, þegar fólk er svona meira heima, getur það þróast hraðar,“ útskýrir hún. 

Þessir þættir kunni einnig að skýra fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi af hendi barns í garð foreldris, en þær voru fjörutíu prósentum fleiri á þessu ári en að meðaltali á síðustu fimm árum. Þó kunni líka að hafa áhrif að aðrir í fjölskyldum og nágrannar séu meira heima, og líklegri til að verða vitni að ofbeldi og þar með til að tilkynna það.

Vitundarvakning hjálpað til

Hún nefnir líka vitundarvakningu innan kerfisins í upphafi faraldursins og að almenningur hafi í auknum mæli verið hvattur til að tilkynna brot:

„Í upphafi faraldurs fóru lögregla, barnavernd, félagsþjónusta, og samtök sem hafa stutt við þolendur heimilisofbeldis, af stað. Allir höfðu miklar áhyggjur af þróuninni sem gæti orðið og þá var farið í vitundarvakningu og í að bæta þjónustu og aðgengi brotaþola að þjónustu, og hvetja aðila í umhverfinu til að tilkynna. Það er líka búið að setja upp 112-vefinn sem er miðlægur vettvangur þar sem fólk getur leitað sér hjálpað. Ég held að allt þetta hafi áhrif,“ segir Rannveig.