Forseti Íslands segir að honum hafi orðið illa við þegar hann heyrði af ásökunum um ofbeldis- og kynferðisbrot landsliðsmanna í fótbolta.
„Að sjálfsögðu illa. Það verður að vera þannig að við getum stutt fulltrúa Íslands á vettvangi sem þessum en um leið stutt þolendur ofbeldis og áreitni, annars erum við í vondum málum. Nú hefur forysta Knattspyrnusambandsins axlað ábyrgð og nú hljótum við að vænta þess og vona að hér hafi orðið breytingar til batnaðar. Ég held líka að við munum sjá að samfélagið er að breytast í þá veru að það sem einu sinni var þess eðlis að það var reynt að hylma yfir hluti, það verður ekki raunin áfram,“ segir Guðni.
Verðum að geta notið þess að horfa á fótbolta
„En að sama skapi verðum við að hafa í huga líka að fara ekki úr öskunni í eldinn. Hér er lið Íslands að fara að keppa. Ég reyni að fara á leiki Íslands í hvers kyns íþróttum, hvort sem það eru konur eða karlar að keppa. Það er ekki nein erfðasynd að vera karlmaður og hafa áhuga á fótbolta. Við getum farið og notið þessarar skemmtunar sem knattleikur er en um leið verðum við að vita fyrir víst að komi eitthvað upp á þá verði tekið á því,“ segir Guðni.
Heiðri fylgir ábyrgð
„Það er mikill heiður að koma fram fyrir Íslands hönd, að vera fulltrúi Íslands, hvort sem það er í íþróttum eða á öðrum vettvangi. Þeim heiðri fylgir ábyrgð, fylgir sú skylda að haga sér sómasamlega, að vera ekki fáviti. Nú búum við svo um hnútana að við lærum af reynslunni og horfum björtum augum fram á veg. Þá verður gott að búa í þessu landi,“ segir Guðni.
Vonbrigði hvernig málin þróuðust
Faðir Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur, sem greindi frá grófri kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hálfu landsliðsmanns, sendi Guðna Th. tölvupóst og í kjölfarið tók hann málið upp við þáverandi formann KSÍ. Voru það vonbrigði hvernig tekið var á málinu?
„Eins og málin þróuðust núna. En á sínum tíma skildi ég stöðuna þannig að brotaþoli hefði verið sátt við þá niðurstöðu sem þá náðist og ég hygg að allar upplýsingar sem síðan hafa komið, staðfesti það,“ segir Guðni.