Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm ára afganskur drengur lést í Varsjá

02.09.2021 - 10:47
Erlent · Afganistan · Kabúl · Pólland · Varsjá
epa09430533 A military aircraft takes off at the Hamid Karzai International Airport, in Kabul, Afghanistan, 26 August 2021. At least 13 people including children were killed in a blast outside the airport on 26 August. The blast occurred outside the Abbey Gate and follows recent security warnings of attacks ahead of the 31 August deadline for US troops withdrawal.  EPA-EFE/AKHTER GULFAM
 Mynd: EPA
Fimm ára afganskur drengur sem yfirgaf Kabúl í ágúst eftir valdatöku Talibana lést á sjúkrahúsi í Varsjá í Póllandi í morgun eftir að hafa borðað eitraðan svepp, og sex ára gamall bróðir hans er í bráðri lífshættu. AFP fréttastofan greinir frá.

Drengirnir komu til Póllands ásamt foreldrum sínum 23. ágúst og dvöldu í flóttamannabúðum í bænum Podkowa Lesna skammt frá Varsjá. Þeir, ásamt sautján ára systur þeirra, borðuðu eitraða sveppi daginn eftir og voru flutt á sjúkrahús í Varsjá nokkrum dögum síðar. Systirin var fljótlega útskrifuð en yngri drengurinn var úrskurðaður látinn í morgun og læknar telja litlar líkur á að bróðir hans lifi af. 

Saksóknarar hafa hafið rannsókn á málinu en forsvarsmenn pólsku útlendingastofnunarinnar hafa hafnað því að börnin kunni að hafa lagt sér sveppina til munns vegna þess að þau hafi verið svelt í flóttamannabúðunum. Þeir segja flóttafólk hafa fengið þrjár næringarríkar máltíðir á dag.

Fjölskyldan var á meðal þeirra tólf hundruð afgönsku flóttamanna sem pólsk yfirvöld fluttu frá Afganistan, að beiðni breskra yfirvalda en faðir barnanna starfaði um tíma fyrir breska herinn.