Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

1.200 konur bíða eftir niðurstöðum brjóstaskimana

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 1.200 konur bíða nú eftir niðurstöðum skimunar á brjóstakrabbameini, en vegna læknaskorts á Landspítala hefur ekki verið lesið úr neinum röntgenmyndum úr brjóstaskimunum í rúman mánuð. Sviðsstjóri á rannsóknarsviði spítalans segir þetta ekki gott innlegg í umræðuna um krabbameinsskimanir, en verkefnið hafi verið flókið og tekið lengri tíma en búist var við þegar spítalinn tók við því.

Viðmið kveða á um að lesið sé úr brjóstamyndum innan tíu daga. Röntgenlæknar sem lesa úr myndunum hafa ekki fengist til starfa á Landspítala og konur hafa nú beðið í allt að mánuð eftir niðurstöðum.

Spítalinn hefur samið við danska heilbrigðisfyrirtækið Senologia til að lesa úr myndunum næstu þrjú árin og Maríanna Garðarsdóttir sviðsstjóri á rannsóknarsviði Landspítala segist vonast til þess að hægt verði að svara öllum konunum á næstu vikum. „Þetta er eitthvað sem gengur mjög fljótt að gera þegar það er komið í gang. En svörin vissulega tefjast um svona tvær vikur miðað við það sem er eðlilegt en svör ættu að berast núna á þessum dögum. Byrjað á þeim sem komu fyrst. Í heildina í ágústmánuði voru rannsakaðar rétt um 1.200 konur. þannig að það eru þær sem eru að bíða,“ segir Maríanna.

Staða krabbameinsrannsókna og - skimana hefur verið mikið til umræðu og margar konur hafa sagst vera óöruggar vegna stöðunnar og þeirra tafa sem verið hafa á niðurstöðum skimana. Maríanna segir að þessi töf bæti þar ekki úr.

„Nei - þetta er ekki gott innlegg í það. Alls ekki. Það er alls ekki það sem við viljum að varpa meira óöryggi inn í þennan hóp því að það hefur verið mikil umræða um leghálsskimanir á þessu ári,“ segir Maríanna.

Hún segir að það hafi verið stefna Landspítala að sinna þessu verkefni eins vel og hægt er þegar spítalanum var falið það eftir að Krabbameinsfélagið hætti að sinna skimunum og greiningum. „En það var flókið að taka við þessum brjóstaskimunum sem okkur var ætlað að gera af hendi ráðuneytis og undirbúningurinn var flókinn við að flytja þetta frá Krabbameinsfélaginu. Við óskuðum eftir fresti á sínum tíma vegna COVID, sem við fengum, en teljum okkur hafa gert þetta eins vel og hægt var á þessum tíma,“ segir Maríanna.