Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skimunarskylda aflögð við landamæri Færeyja

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ferðalöngum til Færeyja verður ekki gert skylt að fara í skimun vegna COVID-19 við komuna til landsins frá og með morgundeginum 1. september. Landsstjórnin kynnti þessa ákvörðun í síðustu viku.

Ákveðið var að minnst 80% Færeyinga skyldu vera bólusettir áður en látið yrði af sýnatöku við landamærin. Þau markmið hafa ekki náðst að fullu en tæp sjötíu af hundraði teljast nú fullbólusett.

Michael Boolsen, ríkislögreglustjóri og formaður sóttvarnarnefndar segir í samtali við færeyska ríkisútvarpið að fyrir hafi legið að fyrr eða síðar yrði sýnatöku við landamærin hætt.

Ný bylgja faraldursins í júlí varð til þess að skyldan til skimunar var framlengd til 31. ágúst. Hver og einn sem kemur til Færeyja er þó hvattur til að taka kórónuveirupróf tveimur sólarhringum fyrir komuna og tveimur sólarhringum eftir hana.

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, segir nýgengi smita í landinu vera ásættanlegt. Því stefni flest í að hverfa megi til eðlilegs lífs að nýju að sögn lögmannsins sem kveðst þakklátur löndum sínum varðandi viðbrögð við faraldrinum.