Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Guðspjallamaðurinn Kanye kann sér ekki hóf

Mynd: EPA / EPA

Guðspjallamaðurinn Kanye kann sér ekki hóf

01.09.2021 - 11:30

Höfundar

Það er alltaf stórviðburður þegar ný plata kemur frá Kanye West, skærustu og óútreiknanlegustu stjörnu í dægurtónlist samtímans. Nýútgefin plata hans, Donda, er í senn stórkostlega snjallt og meingallað listaverk, segir Davíð Roach Gunnarsson.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Kanye West hefur nú loksins gefið út sína tíundu breiðskífu, Donda, sem hann hefur endurnefnt í það minnsta einu sinni,  og ætlað að gefa út og og hætt við oftar en tölu verður á komið. Og meira að segja nú eftir að platan er komin út hefur hann sagt að dreifingarfyrirtækið Universal hafi gefið hana út án síns samþykkis. Hvað sem því líður er platan sloppin út í eterinn og verður til umræðu hér.

Haustið 2018 bárust fyrst fregnir af plötunni Yandhi sem koma átti út í nóvember það ár, í tísti frá eiginkonu hans og barnsmóður Kim Kardashian. Á þeim þremur árum sem liðið hafa síðan hefur komið út gospel-platan Jesus is King, Yandhi verið hent í ruslið, og Kanye sagt skilið við Kim Kardashian eiginkonu sína. Þann 25. maí í fyrrasumar var tilkynnt úr herbúðum Kanye að von væri á plötunni God’s Country, eilítið síðar var nafninu breytt í Donda, eftir móður Kanye sem er látin, og útgáfudagur settur 24. júlí. Hann var sá fyrsti af mörgum sem ekki var staðið við, en í sumar virtist þó rofa til þegar Kanye bauð til hlustunarpartía á Benz-leikvanginum í Atlanta, en eftir hið þriðja kom hún loksins út, þann 29. ágúst.

Og hvernig er hún svo, spyrjið þið, og stutta svarið er í anda sjálfsmyndar Kanye sjálfs – flókin, mótsagnakennd og útblásin í margar áttir samtímis. Donda er metnaðarfull og dramatísk en samt stundum með húmor fyrir sjálfri sér, heldur áfram á gospel- og áfram kristmenn krossmenn-vegferðinni þar sem Ye hefur haldið sig á síðustu plötum, og síðast en ekki síst, er hún ALLT ALLT of löng, tæpir tveir tímar. Það er erfitt að dæma hana til fullnustu eftir svo stuttan tíma en mín fyrsta tilfinning er að hún sé betri en Jesus is King og Ye, en talsvert að baki Life of Pablo frá 2016, hans síðasta óumdeilda meistaraverki.

Tískumógúll, trúarleiðtogi og trömpisti

Kanye West gengst reyndar ekki við því nafni lengur, heldur einungis styttingunni Ye, sem hann hefur nú lagt fram sem breytingartillögu við þjóðskrá Bandaríkjanna. Kanye er eitt helsta íkon Bandaríkjanna á 21. öldinni, og langt síðan hann hætti að vera helst þekktur fyrir tónlistina, hann er líka tískufyrirmynd, trúarleiðtogi, stjórnmálatrúður og trömpisti. Að rýna í útblásið egó Kanyes og allar þær margþættu persónuleikaraskanir og stefnubreytingar á ferlinum er ómögulegt í pistli sem þessum, til þess þyrfti heilan þátt, bók eða margar bækur. Látum okkar bara nægja að stikla á því stærsta og segja að hann sé „enfant terrible“ og „idiot savant,“ eins konar Lars Von Trier hiphopsins, marglaga mótsagnabúnt sem hefur aldrei gert það sem búist er við af honum. Hann hefur verið kallaður mikilvægasti tónlistarmaður 21. aldarinnar og líkt við David Bowie og Björk, ekki síst í því hvernig hann eins og þau hefur ótrúlegt nef fyrir því að þefa uppi ungt og ferskt hæfileikafólk til samstarfs við sig, en jafnframt beygja það undir sína eigin listrænu sýn.

Kanye West er 44 ára og ólst upp í Chicago. Hann braust fyrst til metorða sem taktsmiður fyrir Jay-Z á plötunni The Blueprint árið 2001 og í kjölfarið  sem upptökustjóri fyrir listamenn eins og Ludacris, Alicu Keys og Janet Jackson. Hann sló svo í gegn sem sólólistamaður og rappari með plötunni College Dropout árið 2003. Í kjölfarið komu svo Late Registration, Graduation og 808s & Heartbreaks, sem kom út 2008, og var ein þeirra platna sem komu átótún-söngnum almennilega á kortið. Proggaði ópusinn My Beautiful Dark Twisted Fantasy kom svo út árið 2010 og steinsteypuharða iðnaðarferlíkið Yeesuz 2013, að mínu mati hans bestu plötur.

Árið 2016 gaf hann svo út Life of Pablo, hans síðasta óumdeilda meistaraverk, en á henni byrjaði hann fyrst að daðra harkalega við gospel-hljóminn sem síðan hefur verið helsta leiðarstefið í hljóðheimi hans. Þegar þar var komið sögu var Kanye farinn að gefa út fata- og skólínu í samstarfi við Adidas og óð á súðum í viðtölum við fjölmiðla, þar sem hann tjáði sig um allt frá geðhvarfasýkinni sem hann glímdi við yfir í meinta aðdáun sína á Donald Trump. Hann fór í útlegð á búgarði sínum í Wyoming og gaf í kjölfarið út fimm sjö laga plötur með sér, Pusha T, Nas, Työnu Taylor og samstarfsverkefni sitt og Kid Cudi sumarið 2018.

Sunnudagaskóli Kanye

Kanye hefur alltaf verið trúaður og talað um guð í textum sínum, en eftir Trump-meltdownið hefur hann hallað sér að himnafeðgunum og heilögum anda í auknum mæli. Hann virðist líka, þó það sé erfitt að nefna það hugtak í sömu andrá og Kanye, hafa öðlast eilitla auðmýkt; að því leyti að hann talar meira til guðs og jesú, en gerir minna af því að líkja sjálfum sér við þá. Hann stofnaði Sunday Service kórinn í upphafi árs 2019 og gaf í samstarfi við þá út plötuna Jesus is King í október sama ár, sem þrátt fyrir einstaka spretti er með lakari verkum sem eftir hann liggja.

Donda sem kom út á sunnudaginn hefst gríðarsterkt með laginu Jail, hörðum synþahljómum, mjúkum orgelsvuntum, vælandi rafmagnsgítar og ekstatískum gospelkór; Guess who’s going to jail tonight? Áferðin á kórnum og meðhöndlunin á mannsröddunum gefur þeim einkenniskraft sem aðrir upptökustjórar gætu ekki kokkað upp, og þú heyrir frá fyrstu sekúndu bara á kórhljómnum að þarna er Kanye að snúa tökkunum. Geggjað vers frá Jay-Z sem hefst ekki fyrr en á þriðju mínútu er svo kirsuberið ofan á rjómaísnum og óvænt taktvending á síðustu hálfu mínútunni er karmellusósan, allt við lagið osmósar Kanye upp á sitt megalómaníska besta; I'll be honest, we all liars / I'm pulled over and I got priors játar hann mótsagnakennt og syngur ásamt Francis and the Lights.

Reynt á þanþol þolinmæðinnar

En á eftir því koma svo alveg rosalega mörg lög. Það er frekar erfitt að ná utan um plötu sem er 27 lög og tæplega tveir klukkutímar. Breiðskífan sem listform hefur reyndar verið á undanhaldi sökum Spotify-playlista og sífellt meiri áunnum athyglisbresti internetsins, nú á dögum koma út sjö laga og 18 mínútna plötur sem eru kallaðar breiðskífur, sem áður fyrr hefði rétt svo slagað í að teljast EP-plata. Mér finnst þetta leiðinleg þróun og gott að einhverjir tónlistarmenn berjist gegn henni; því breiðskífan sem langt listaverk með layerum, þar sem samhengið og lagaröðunin gefur aukið vægi, er eitthvað sem er vel þess virði að halda í. En fyrr má nú rota en dauðrota, því tveir klukkutímar er hreinlega allt allt of langt, og þó ekkert sé beinlínis hundlélegt þá maukast maður í hausnum og lögin renna saman þegar maður ver svo löngum tíma innan einnar plötu.

Ef maður ætti að tala um eitthvað sem bindur hana saman þá heldur Kanye áfram að hjakkast í guðstrúnni. Það sést bæði í textum og lagatitlum eins og God Breathed, Praise God, Heaven and Hell, Keep My Spirit Alive og Jesus God, en líka í surgandi orgelum og kraftmiklum gospelkórum sem eru ríkjandi í hljóðheimi mjög margra laga. Mér finnst alveg að Kanye mætti fara að tóna aðeins niður sunnudagaskólann, og það að hann þurrki út blótsyrði gestarappara finnst mér plebbalegt, en að því sögðu þá getur þessi trúarhiti af sér gríðarlega sterk móment af og til á plötunni, eins og í titillaginu Donda.

Heaven and Hell er frábær bassagroddi með geggjuðu sampli, everybody gots to make a living, og Remote Control þar sem melódísk krúnerinn Young Thug rappar er líka eitt sterkasta lag plötunnar. Þar er trommutakturinn af hernaðarkyni og blandast við himneskt flaut og ruggandi átótúnrapp Young Thug, og ég brosti út að eyrnasneplum yfir Kraftwerk-legu róbótaröddinni í lokin. Tíminn á auðvitað eftir að leiða það í ljós en við fyrstu hlustanir er Donda eins og áður segir allt of löng, og hefði þurft strangari ritstjórn. Í lokin á henni eru til dæmis aðeins öðruvísi útgáfur af fjórum lögum sem áður höfðu birst á plötunni, og er öllum algjörlega ofaukið. Það er þó fullt af snilld inni á milli og platan er heilt yfir sterkari en síðustu tvær, Jesus is King og Ye, en langt frá því að slaga í hans bestu, Life of Pablo, Yeezus og My Beautiful Dark Twisted Fantasy, jafnvel þó hún væri skorin niður í segjum 14 bestu lögin.

Besta lagið Jesus Lord er samt algjörlega epískt dúndurgospel þar sem Jay Electronica á frábært vers mökkhlaðið af bókamennta- og biblíutilvísunum. Það er þó Kanye sem eignar sér lagið með því að hella úr skálum sálar sinnar  og tæpir meðal annars á sjálfsmorðshugsunum, erfiðri æsku, eiturlyfjaneyslu, geðsjúkdómum og mögulegum fóstureyðingum, og biður guð um að reisa móður sína upp frá dauðum:

And if I talk to Christ, can I bring my mother back to life?
And if I die tonight, will I see her in the afterlife? (Jesus)
But back to reality, where everything's a tragedy (Lord)
You better have a strategy or you could be a statistic

Kanye West er séní sem hefur fyrir löngu löngu síðan hafið sig yfir tölfræðina, og er einstakt stak í mengi listasögu 21. aldarinnar. Donda er listaverk sem gæti ekki hafa komið frá neinum öðrum og er stórkostlega snjallt, meingallað og mistækt, allt á sama tíma, rétt eins og maðurinn sjálfur. Guðspjallamaðurinn Kanye hefur talað, og við hlustum og túlkum um ókomna tíð.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Kanye West og glíman við geðhvörfin

Trúarbrögð

Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Kanye West

Popptónlist

Sunnudagsmessa Kanye West á Coachella

Tónlist

Geðhvörf og nett vonbrigði frá Wyoming