Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fréttatímarnir táknmálstúlkaðir í beinni útsendingu

31.08.2021 - 18:50
Mynd: RÚV / RÚV
Allir sjónvarpsfréttatímar RÚV klukkan 19 verða frá og með morgundeginum táknmálstúlkaðir. Túlkarnir túlka þá allan fréttatímann í beinni útsendingu. Fólk getur valið hvort það horfir á sjónvarpsfréttatímann án túlkunar eða skiptir yfir á RÚV2 og horfir á túlkaðan fréttatíma.

Þegar það eru beinar útsendingar frá íþrótta- eða tónlistarviðburðum á RÚV 2 verður táknmálstúlkaði fréttatími í sérstakri færslu á vefnum ruv.is. 

Þá er þetta náttúrulega túlkað í beinni?

„Já, við fáum táknmálstúlk í hús sem kemur til okkar og stendur bara hér í stúdíói og túlkar fréttatímann jafnóðum og hann er sagður,“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðgjafi RÚV.

Ef það er viðtal við forsætisráðherra í beinni útsendingu í fréttatímanum, þá verður það túlkað líka?

„Já já, allt saman túlkað í beinni,“ segir Anna.

Á RÚV2 og í spilara RÚV

Fréttatíminn verður líka aðgengilegur í spilara RÚV. 

Hvers vegna er ráðist í þetta núna?

„Það er fyrst og fremst vegna þess að það var mikil ánægja með táknmálstúlkaðar fréttir í faraldrinum þar sem það jókst mjög mikið. Við fengum mjög góð viðbrögð við því og miklar þakkir. Og okkur finnst tímabært að stíga þetta skref til fulls og fara alfarið í táknmálstúlka fréttir klukkan nítján alla daga,“ segir Anna.

Alls verða sjö táknmálstúlkar sem munu túlka fréttatímana. „Við höfum samið við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra um að sjá um þessa túlkun fyrir okkur. Þetta verða kunnugleg andlit sem koma hér á skjáinn, fólkið sem túlkaði hér fyrir okkur í faraldrinum. Þær túlkuðu á upplýsingafundum almannavarna og komu svo á kvöldin og túlkuðu kvöldfréttatímana hjá okkur,“ segir Anna.

Táknmálsfréttirnar áfram út október

Anna segir að dagskrárliðurinn Táknmálsfréttir sem hefur árum saman verið á dagskrá í Sjónvarpinu kl. 17:50 hverfi ekki strax af skjánum. „Táknmálsfréttirnar eru á útleið en ekki strax. Við ætlum að halda áfram með táknmálsfréttir núna í september og október. Þannig að það verða sömu þulirnir og fólk þekkir svo vel og hafa verið hjá árum og jafnvel áratugum saman,“ segir Anna. 

Allir táknmálsþulirnir eru döff, fólk sem heyrir ekki og notar táknmál sem sitt fyrsta mál. En allir táknmálstúlkarnir sem túlka fréttatímana klukkan sjö eru heyrandi. „Það er ekki mörgum til að dreifa sem geta túlkað talað mál verandi heyrnarlausir, þó þeir séu til. En það einfaldar málið að nýta þessa reyndu túlka frá Samskiptamiðstöðinni til að túlka fyrir okkur því þeir heyra það sem sagt er,“ segir Anna. 

Þá er einnig stefnt að því að túlka á táknmáli Krakkafréttir sem hefja brátt göngu sína á ný.