Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þjóðarpúls: Ríkisstjórnin fallin

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin er fallin, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fá 31 þingmann miðað við niðurstöður könnunarinnar. Ekki munar þó miklu enda þurfa flokkar hennar aðeins einn þingmann til viðbótar til að halda meirihluta.

Samanlagt fylgi flokkanna þriggja er 46,2% og dregst saman milli mánaða.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærstur flokka. Hann mælist með 24,2% fylgi sem er á pari við síðustu könnun og myndi skila honum 17 þingmönnum. Vinstri græn dala á milli mánaða en 12,3% kjósenda segjast munu styðja flokkinn og fengi hann átta þingmenn.

Alls segjast 9,7% kjósenda myndu kjósa Framsókn en það gæfi flokknum sex þingmenn.

Engin stjórn frá hruni staðið betur

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir í viðtali við Spegilinn, ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafi gefið nokkuð eftir á síðustu mánuðum. Samanlagt fylgi flokkanna hafi dregist saman en einnig fjöldi þeirra sem segjast styðja hana.

Alls segjast 54,9% kjósenda styðja ríkisstjórnina, eða fleiri en styðja flokka hennar samanlagt. Þannig hefur því verið háttað mestallt kjörtímabilið. Stuðningurinn hefur þó undanfarna mánuði gjarnan verið um 60%.

Ólafur bendir á að frá hruni hafi stuðningur við allar ríkisstjórnir dvínað eftir því sem líður á kjörtímabilið. „Það ber að hafa í huga að staða allra ríkisstjórna eftir hrun hefur verið miklu, miklu verri heldur en staða ríkisstjórnarinnar núna og ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Ólafur.

Sósíalistar á flugi

Fylgistap ríkisstjórnarflokkanna skilar sér þó ekki til stjórnarandstöðunnar á þingi, heldur einkum sósíalista.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 8,2% fylgi, bætir við sig 1,5 prósentustigum frá síðasta þjóðarpúlsi, sem birtur var um miðjan mánuð, og hefur aldrei mælst stærri í könnun. Flokkurinn fengi fimm þingmenn miðað könnunina.

„Þetta hefur verið nokkurra mánaða ferli, þeir hafa hægt og rólega sigið upp,“ segir Ólafur og segir það til marks um það að flokkurinn hafi umtalsverðan hljómgrunn.

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar eru öll á svipuðu róli. Samfylkingin nýtur stuðnings 11,5% kjósenda, sem dygði flokknum til að fá átta menn kjörna. Viðreisn mælist með 10,6% fylgi, sem skilar sjö mönnum og Píratar fá 10,9% stuðning, sem skilar einnig sjö mönnum.

Fylgi Miðflokksins er stöðugt milli mánaða, mælist 7,0% en það gæfi flokknum fimm þingmenn.

Flokkur fólksins mælist utan þings, eins og í síðustu þjóðarpúlsum. Hann er þó hársbreidd frá þingsæti. Flokkurinn mælist með 4,9%. Fimm prósenta fylgi þarf til að fá úthlutuðum jöfnunarþingsætum en ætla má að ef það næðist fengi flokkurinn fengi þrjá menn kjörna.

Ekki endilega kosið um sóttvarnir

Ólafur segir að mörg mál séu líkleg til að verða kosningamál. „Það eru margir sem héldu að plágan – og viðbrögð við henni – yrði kosningamál,“ segir Ólafur og vísar til ályktana frá flokksstofnunum Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar um að slaka þurfi á sóttvarnaaðgerðum.

„Spurningin er hins vegar sú, er einhver flokkur ósammála þessu? Því að ef allir eru sammála þá er ekki mikið um að rífast. Þannig að ég er ekki viss um að sóttvarnirnar verði eins mikið kosningamál og margir hafa haldið" segir Ólafur Þ. Harðarson við Spegilinn.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV