Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Scholz þótti standa sig best

Mynd: APTN / APTN
Skyndikönnun sem gerð var eftir sjónvarpskappræður kanslaraefna í Þýskalandi í gærkvöld bendir til þess að kjósendum þyki Jafnaðarmanninn Olaf Scholz hafa staðið sig best. Þjóðverjar kjósa 26. september, daginn eftir alþingiskosningar á Íslandi.

Eftirmaður Merkel hefur klúðrað forystu

Angela Merkel, sem verið hefur kanslari Þýskalands í sextán ár, lætur af embætti eftir kosningarnar í september. Flokkur hennar, Kristilegir demókratar, völdu Armin Laschet, forsætisráðherra Nordrhein-Westphalen, kanslaraefni í hennar stað. En það hefur reynst misráðið, Laschet hefur glutrað niður fylgi flokksins.

Skellihlægjandi á sorgarstundu

Miklu skipti að þegar Frank-Walter Steinmeyer forseti flutti harmþrungið ávarp á svæði sem varð illa úti í flóðum í júli sást Armin Laschet ásamt fleiri ráðamönnum í baksýn skellihlæjandi og að gantast við þá sem stóðu næst honum. Stuðningur við Laschet í kanslaraembætti hrapaði úr 37 prósentum í 21.

Scholz hefur bætt miklu við sig

Annalena Baerbock, leiðtogi Græningja, átti einnig í vandræðum. Olaf Scholz, fjármálaráðherra og kanslaraefni Jafnaðarmanna, hefur hins vegar ekkert orðið á í kosningabaráttunni og fylgið við hann og Jafnaðarmannaflokkinn hefur aukist úr 14 prósentum í 24. Í síðustu viku fóru Jafnaðarmenn fram úr Kristilegum í könnun í fyrsta sinn í fimmtán ár. 

Jafnaðarmenn og Kristilegir sitja saman í ríkisstjórn - en græninginn Annalena Baerbock sagði þá stjórn ekki hafa staðið sig vel og nú væri breytinga þörf. Laschet sagði hins vegar að 16 ára valdatíð Angelu Merkel hefðu verið góður tími, en nú væru breytingar framundan og hann væri rétti maðurinn til að leiða þær.

Scholz hélt ró í umræðunum

Bæði Baerbock og Laschet þurftu nauðsynlega að standa sig vel í kappræðunum og á meðan þau körpuðu hélt Olaf Scholz ró sinni. Sumir fréttaskýrendur sögðu að framkoma hans hefði minnt á yfirvegaðan stíl Angelu Merkel. Hann sagði Jafnaðarmenn hafa góða stefnu fyrir framtíðina og störf hans í stjórnmálum hefðu verið góður undirbúningur fyrir sig.

Lítill munur og spennandi kosningar framundan

Laschet spurði í lokaorðum sínum hvort allir fyndu ekki vind yfirvofandi breytinga. Sá vindur breytinga gæti feykt Kristilegum úr kanslaraembættinu, fréttaskýrendur eru flestir á því að Olaf Sholz hafi komið best út og kjósendur virðast sammála ef marka má skyndikönnun eftir kappræðurnar. Munurinn á stærstu flokkunum er hins vegar lítill og margt getur gerst á næstu fjórum vikum fyrir kosningarnar. Fáir eru því reiðubúnir að spá hver verði eftirmaður Angelu Merkel.