„Þau myndu gefa mér fingurinn ef ég segði þetta“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þau myndu gefa mér fingurinn ef ég segði þetta“

29.08.2021 - 09:00

Höfundar

„Ég sakna þeirra mjög mikið en þau forðast mig núna, ég finn það algjörlega,“ segir Kristín Ómarsdóttir um ljóðin sem eru henni kær. Í fjarveru ljóðanna setti hún saman smásagnasafnið Borg bróður míns sem kemur út í haust.

Rithöfundurinn Kristín Ómarsdóttir er að leggja lokahönd á glænýtt smásagnasafn sem kemur út í haust. Hún hefur áður sent frá sér smásögur, árið 1991 kom út safnið Einu sinni sögur, og er nýja bókin, Borg bróður míns, skrifuð í hennar anda. „Rithöfundar eru að krunka til annarra rithöfunda en ég er bara að krunka til sjálfrar mín,“ segir Kristín um nýju bókina. Bókina byrjaði hún að skrifa í kjölfar þess að nýjasta skáldsaga hennar, Svanafólkið, kom út. „Ég veit ekki af hverju. Kannski hafa bara einhverjar stjörnur sest á sama stað en þetta er ekki meðvitað, alls ekki.“

„Vogin selur sig ekki“

Hún veit ekki hvenær bókin kemur út, en það verður einhvern tíma á haustmánuðum. „Annaðhvort verður hún í voginni eða sporðdrekanum og ég get trúað að þessi yrði vog,“ segir hún um Borg bróður míns. „Ég finn að vogin og sporðdrekinn eru byrjuð að rífast um þessa bók, þau vilja bæði eiga hana.“ Það er svo í höndum útgefandans að ákveða hvor sigrar þann slag. „Sporðdrekinn ætlar bara í vogina. Hann er tilbúinn að borga mikið en vogin selur sig ekki, eins og allir vita, verandi sjálf vog,“ segir Kristín. „Mér finnst þetta mjög spennandi, þetta er ekkert í mínu valdi og ég ætla ekki að stjórnast neitt í því.“

Þessi saga er mjög sönn þó það sé engin beinagrind í alvöru

Kristín Ómarsdóttir kíkti í Tengivagninn og sagði frá kvikmyndaáhuga sínum og nýju bókinni og las upp glænýja smásögu úr henni sem nefnist Kjólarnir hennar Kamillu. Sagan fjallar um samband Kamillu við beinagrind sem hún hefur ekki leyfi til að eiga, sem flækir samband þeirra. „Þessi saga er mjög sönn. Þó það sé ekki beinagrindin sem þú þarft að fá leyfi fyrir þá þarftu að fá leyfi fyrir allskonar hlutum,“ segir hún. „Ég get ekki farið eitthvert nema vera með bólusetningaskírteini. Leyfisskylda manns þéttist bara og þéttist.“

Var sagt að hætta að fara í þrjúbíó eftir að hún fermdist

Kristín stundaði kvikmyndahúsin grimmt á yngri árum. „Ég var bara uppnumin yfir bíó,“ segir Kristín en viðurkennir að kvikmyndaáhorf hennar hafi minnkað með árunum. „Ég fer ekki eins mikið í bíó en þegar ég var í kringum þrítugt var ég alltaf í bíó. Ég hef milljón sinnum undrast í bíó, var alltaf í þrjúbíó sem krakki og maður sá bara aftur og aftur myndirnar.“ Helgina áður en hún fermdist tilkynnti móðir hennar að nú þyrfti hún að hætta að fara í þrjúbíó því hún væri að fullorðnast.

Varð ástfangin af Lafðinni í Hefðarköttunum

„Mér fannst þetta rosalegt, bæði spennandi og sorglegt. Ég man leiðina heim eftir að ég fór í síðasta sinn í þrjúbíó.“ segir Kristín en þeirri bíóferð gleymir hún seint. „Það voru skurðir í götunni því það var verið að malbika. Yngri systkinin, ég leyfði þeim að fara á undan. Ég var svo mikið að hugsa um þetta, þessi síðustu skref sem ég var að taka í þrjúbíóið,“ segir Kristín en á þeim tíma voru barnamyndir iðulega sýndar á þessum tíma dags. Þær myndir sem heilluðu Kristínu var meðal annars myndin um Hefðarkettina. „Ég varð ástfangin af lafðinni,“ segir Kristín sem var líka hrifin af kúrekamyndum. „Mér fannst þær æði. Allir þessir hestar sem þjóta yfir eyðimerkurnar.“

Sagði að páfafuglar dræpust fyrir framan litasjónvarp

Eftir þetta hélt hún áfram að sækja kvikmyndahúsin en fór á myndirnar sem voru sýndar á kvöldin. Heimavið horfði hún líka gjarnan á kvikmyndir sem voru sýndar í línulegri dagskrá í svarthvítu sjónvarpi. Litasjónvarp var hún ekki með á yngri árum enda var hún vöruð við þeim. „Einn fyrsti strákurinn sem fór á fjörurnar við mig sagði mér að páfafuglar dræpust fyrir framan litasjónvarp. Þeir bara þyldu ekki litina í sjónvarpinu og dæju,“ segir hún og hlær. „Ég var sammála stráknum, litasjónvarp er ömurlegt.“

Ljóðin myndu ekki kæra sig um að vera kölluð hátíðleg

Kristín hefur sent frá sér níu ljóðabækur og ljóðin eru aldrei langt undan. Síðasta vor birtist nýtt ljóðið [Ósk] eftir hana í Tímariti Máls og Menningar og síðasta haust kom út ljóðasafnið KÓ sem inniheldur allar ljóðabækur hennar. „Ég er byrjuð að brjóta ljóðið í sundur og þetta ljóð, ég var um vetur að hjóla úti og þá kom það,“ segir Kristín um [Ósk]. „Það var í janúar um vetur, kalt úti og ég var að spá þegar ég hjólaði framhjá bóksölu stúdenta hvort ég ætti að skjótast inn að kaupa mér stílabók og penna. En þá las ég það inn á símann, stoppaði, hjólaði, labbaði og það voru nokkrar upptökur.“ Það var gaman að yrkja þetta ljóð samkvæmt Kristínu.

„Oft þegar ég er að labba eða hjóla kemur eitthvað inn, en ég tek það aldrei upp, ég leyfi því bara að gleymast. En ekki þarna.“ Ljóðagerð lýsir hún sem æðislegri. „Það er ákveðin andakt sem fylgir ljóðum, hátíðleiki. Það er einhver andakt því að yrkja ljóð.“ En ljóðin sjálf kæra sig ekki endilega um að vera dásömuð á þennan hátt samkvæmt Kristínu. „Svo myndu þau gefa mér fingurinn ef ég segði þetta.“

Þarf að rífa sig upp á rassgatinu

Hún er þó ekki á ljóðatímabili núna heldur sögutímabili en hún saknar vina sinna, ljóðanna. „Ég sakna þeirra mjög mikið en þau forðast mig núna, ég finn það algjörlega,“ segir hún. „En ég orti ljóð í fyrradag um vindinn.“ En er alltaf nóg af vatni í innblástursbrunninum? „Já,“ segir Kristín ákveðin. „Ég fann það í gær að ég þarf að gera eitthvað róttækt en ég veit ekki hvað. En andarnir segja: Núna þarftu að step forward. Núna þarf ég aldeilis að rífa mig upp af rassgatinu, annars verður þetta bara eyðimörk.“

Verður fyrst fúl þegar verkin koma ekki út

Þó hún hafi gefið út mikið efni segir hún að í sínu tilviki, líkt og margra annarra, sé það bara brot af því sem hún gerir sem kemur fyrir augu almennings. „Ég sætti mig við það. Verð fyrst fúl en það er líka núna sem ég myndi vilja skrifa. Ég vil skrifa og ekki gefa út.“ Hún segir að ljóð séu ekki bara neysluvara, heldur hafi þau annað og meira hlutverk fyrir yrkjandann. „Vinkona mín Vigdís Grímsdóttir segir: skrif eru fyrst og fremst gjöf. Ekkert annað. Það er algjörlega rétt hjá henni.“

Tómas Ævar Ólafsson ræddi við Kristínu Ómarsdóttur í Tengivagninum á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Skil ekki af hverju fólk þarf aðra til að níðast á“

Bókmenntir

Minna kvíðin eftir að hún fann Guð og svanafólkið