Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tekinn úr landsliðshópnum að beiðni stjórnar KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV

Tekinn úr landsliðshópnum að beiðni stjórnar KSÍ

29.08.2021 - 18:51
Leikmaður, sem var valinn í landsliðshópinn fyrir komandi leiki í undankeppni HM, hefur verið tekinn úr hópnum að beiðni stjórnar KSÍ. Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Annar leikmaður hefur óskað eftir því að vera ekki í hópnum. Gísli segir að þetta megi rekja til umræðunnar sem átt hefur sér stað um KSÍ.

Visir.is greindi fyrst frá. Gísli segir að Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, fari betur yfir þetta á næstunni en hann er nýkominn til landsins.  

Ísland mætir Norður-Makedoníu, Rúmeníu og Þýskalandi á Laugardalsvelli. 

Segja má að síðustu dagar hafi verið knattspyrnusambandinu erfiðir og í dag tilkynnti Guðni Bergsson, formaður KSÍ, að hann væri hættur. Stjórnin ætlar að sitja áfram fram að næsta ársþingi sem verður í febrúar. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér kemur fram að allir stjónarmenn hafi íhugað stöðu sína.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í viðtali við fréttastofu RÚV að KSÍ hefði brugðist þolendum  og ekki staðið sig nógu vel.