Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talskona Stígamóta og Hanna Björg funduðu með KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Talskona Stígamóta og Hanna Björg funduðu með KSÍ

29.08.2021 - 16:21
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðingur, og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, áttu í dag klukkustundarlangan fund með konum úr stjórn KSÍ. Hanna Björg segir í samtali við fréttastofu að þær hafi verið beðnar um ráð um næstu skref sem stjórn KSÍ gæti tekið. Konurnar sátu fundinn fyrir hönd allrar stjórnarinnar.

Öll spjót standa á Knattspyrnusambandi Íslands eftir að Guðni Bergsson, formaður sambandsins, fór með rangt mál í viðtali við Kastljós í vikunni. Þar sagði hann að sambandinu hefði ekki borist nein tilkynning um kynferðisbrot leikmanna.

Daginn eftir steig Þórhildur Gyða Arnarsdóttir fram og greindi frá því að landsliðsmaður hefði játað að hafa beitt hana ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni á skemmtistað fyrir fjórum árum. Knattspyrnusambandinu var haldið upplýstu um málið á sínum tíma en það rataði aldrei í fjölmiðla þrátt fyrir háværan orðróm.

Hanna Björg segir í samtali við fréttastofu að stjórnin sé meðvituð um umræðuna á samfélagsmiðlum þar sem fleiri núverandi og fyrrverandi leikmenn landsliðsins eru sakaðir um kynferðisbrot. Núna klukkan fjögur hófst starfsmannafundur hjá KSÍ en stjórn sambandsins hefur fundað stíft í gær og í dag. Kallað hefur verið eftir að hún axli ábyrgð.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kemur saman í vikunni til að undirbúa sig fyrir leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.