Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Guðni Bergsson hættur sem formaður KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Guðni Bergsson hættur sem formaður KSÍ

29.08.2021 - 16:45
Guðni Bergsson hefur sagt af sér sem formaður KSÍ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ á Twitter. Stjórn KSÍ hefur fundað stíft í gær og í dag. Knattspyrnusambandið hefur verið sakað um að bregðast ekki við ábendingum um ofbeldi og kynferðisbrot af hálfu núverandi og fyrrverandi leikmanna karlalandsliðsins.

 

Öll spjót hafa staðið á Knattspyrnusambandi Íslands síðustu daga eftir að Guðni Bergsson, formaður sambandsins, fór með rangt mál í viðtali við Kastljós í vikunni. Þar sagði hann að sambandinu hefði ekki borist nein tilkynning um kynferðisbrot leikmanna.

Daginn eftir steig Þórhildur Gyða Arnarsdóttir fram og greindi frá því að landsliðsmaður hefði játað að hafa beitt hana ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni á skemmtistað fyrir fjórum árum. Knattspyrnusambandinu var haldið upplýstu um málið á sínum tíma en það rataði aldrei í fjölmiðla þrátt fyrir háværan orðróm.

Stjórn KSÍ hefur fundað stíft síðustu tvo daga og klukkan fjögur síðdegis voru allir starfsmenn sambandsins kallaðir á starfsmannafund.  Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynfræðingur, og Steinunn Gyða-og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, voru meðal þeirra sem stjórnin leitaði ráða hjá um næstu skref.

Ásakanir á hendur núverandi og fyrrverandi landsliðsmönnum hafa gengið á samfélagsmiðlum, ein þeirra snýst um grófa hópnauðgun fyrir rúmum áratug. Frásögnin birtist fyrst í maí en fór síðan aftur í dreifingu í vikunni.

 Fram kom á visir.is að konan hefði merkt færslu með frásögninni sem „ábendingu til KSÍ.“

Þá er ein helsta stjarna karlaliðsins, Gylfi Þór Sigurðsson, í farbanni á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni. Hann hefur ekkert spilað með liði sínu Everton í ensku úrvalsdeildinni.  Hvorki fráfarandi formaður né landsliðsþjálfari hafa viljað tjá sig um málið.