Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Borgar 1,2 milljónir í leigu til Hjálpræðishersins

29.08.2021 - 21:29
Það fer ekki framhjá neinum sem ekur eftir Miklubraut að við Sogamýri er nýtt kennileiti að taka á sig mynd; eldrautt og marghyrnt hús sem verður nýtt húsnæði Hjálpræðishersins. Teiknistofan Tröð hannar húsið.
Saga Hjálpræðishersins spannar 125 ár. Lengst af var Reykjavíkurdeildin til húsa í Herkastalanum, sögufrægu húsi við Kirkjustræti, sem hýsti meðal annars gistiskýli fyrir fólk sem átti ekki í önnur hús að venda. Fyrir fjórum árum seldi Hjálpræðisherinn Kastalann og keypti lóð í Sogamýri fyrir nýjar höfuðstöðvar.
 Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg borgar 1,2 milljónir í leigu á mánuði til Hjálpræðishersins fyrir bráðabirgðahúsnæði undir nemendur Fossvogsskóla. Leigusamningurinn er í gildi frá 23. ágúst til 17. september með möguleika á framlengingu um mánuð. Innifalið eru húsgögn, hiti, rafmagn, þrif og húsvarsla.

Fram kemur í bréfi skrifstofustjóra eignaskrifstofu að borgin verði með húsnæðið á leigu meðan unnið sé við uppsetningu bráðabirgðahúsnæðis á lóð Fossvogsskóla.  Það húsnæði eigi að nýta meðan viðgerðir fara fram á aðalhúsnæði Fossvogsskóla. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja í bókun sinni að húsnæðisvanda Fossvogsskóla ætli seint að linna. „Borginni tókst ekki að útvega nothæft húsnæði fyrir kennslu í upphafi skólaárs þrátt fyrir að hafa haft langan tíma til undirbúnings og eytt yfir 500 milljónum í viðgerðir sem dugðu ekki til.“

Leita hafi þurft að náðir Hjálpræðishersins sem skjóti skjólshúsi yfir skólastarfið. „Enn er óljóst hvenær skólastarf verður með eðlilegum hætti og áframhaldandi óvissa.“

Upphaflega stóð til að nemendum í 2. til 4. bekk skólans yrði kennt í anddyri og kjallara Víkingsheimilisins. Eftir hávær mótmæli foreldra hóf borgin leit að öðru húsnæði. Gerð var könnun þar sem yfirgnæfandi meirihluti vildi húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut sem borgin tók síðan á leigu.

Reykjavíkurborg hefur sætt harðri gagnrýni fyrir framgöngu sína í máli skólans.  Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sagði meðal annars í viðtali við Morgunblaðið að seinagangurinn væri óboðlegur.  Borgarstjóri sagði við fréttastofu RÚV að hluti af vandanum í skólanum væri samskiptalegs eðlis. Unnið væri að nýjum verkferlum hvernig bregðast ætti við ef grunur vaknaði um raka og myglu.