Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukin áfengisdrykkja fyrir norðan og austan í sumar

29.08.2021 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Íslendingar hafa drukkið sjö komma eina milljón lítra af áfengi síðustu þrjá mánuði. Bjór er þrír fjórðu af heildarlítramagni sem runnið hefur ofan í landann í sumar.  Veruleg aukning er á drykkju á Austurlandi og Norðurlandi þessa mánuði en örlítill samdráttur er í drykkju á höfuðborgarsvæðinu miðað við sölutölur ÁTVR

Þótt flestir áfengislítrar séu seldir af bjór er engu að síður eins prósents samdráttur þar miðað við sama tíma í fyrra.

Ef áfengisdrykkja landsmanna í júní, júlí og það sem af er ágúst er borin saman við sama tíma á síðasta ári kemur í ljós að innbyrt lítramagn dregst saman um eitt prósent í heildina.  Freyðivín hefur verið vinsælt og hefur selst 15 prósentum meira af því í sumar en sumarið 2020.

Athygli vekur að sala á rauðvíni og hvítvíni dregst saman um 3 prósent. Engu að síður eru rauðvín og hvítvín 87 prósent af heildarsölu léttvínstegunda. Freyðivín og rósavín tilheyra einnig þeim flokki.

Blandaðir drykkir svonefndir virðast hafa verið sumarsmellir því 15 prósenta aukning er í þeim flokki. Á sama tíma og samdráttur varð í sölu á höfuðborgarsvæðinu um 3 prósent jókst salan um 13 prósent á Austurlandi og 8 prósent fyrir norðan.  Í upplýsingum frá ÁTVR segir að gera megi ráð fyrir að sólríkt veður fyrir norðan og austan skýri væntanlega breytingar á sölu eftir landshlutum milli ára.

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV