Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja aðra árás í Kabúl vera yfirvofandi

28.08.2021 - 19:53
Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur ávarp.
 Mynd: EPA
Þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna telur yfirvofandi hættu á öðru hryðjuverki í Kabúl næsta eina og hálfa sólarhringinn. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, greindi frá þessu í yfirlýsingu í kvöld. Vestræn ríki hafa nú aðeins þrjá daga til stefnu til að flytja allt herlið sitt á brott frá Afganistan og spennan í höfuðborginni fer stigmagnandi

Biden segir í yfirlýsingunni að drónaárásin sem bandaríski herinn stóð fyrir í nótt og beint var að hryðjuverkasamtökin ISIS-K hafi ekki verið sú síðasta. 

Hryðjuverkasamtökin hafa lýst ábyrgð á mannskæðri sjálfsmorðssprengjuárás fyrir utan flugvöllinn á fimmtudag þar sem almennir borgarar og bandarískir hermenn féllu. Margir þeirra voru bara nýfæddir þegar bandaríska herliðið réðst inn í landið fyrir 20 árum.

Talsmenn talibana hafa gagnrýnt dróna-árásina og telja að Bandaríkjastjórn hefði átt að ráðfæra sig við þá fyrst.  John Kirby, upplýsingafulltrúi varnarmálaráðuneytisins, sagði tvo leiðtoga hafa fallið í árásinni. „Sú staðreynd að hvorugur þeirra sé á lífi er góðs viti,“ sagði Kirby á fundi með fréttamönnum.

Biden segir í yfirlýsingu sinni að aðstæður á vettvangi séu mjög hættulegar og það stafi mikil ógn af hryðjuverkasamtökum við flugvöllinn. „Við teljum mikla hættu á annarri árás næstu 24 til 36 klukkustundirnar.“