Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikið um að vera í dag í aðdraganda alþingiskosninga

Frá landsfundi VG 7. maí 2021
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Það verður mikið um að vera í pólitíkinni í dag. Vinstri græn halda seinni landsfund rafrænan og flytur Katrín Jakobsdóttir formaður og forsætisráðherra ávarp fyrir hádegi. Sjálfstæðisflokkurinn heldur stefnumótunarfund formanna og flokksráðs, og Viðreisn heldur seinni hluta landsþings líka í dag.

Það eru fjórar vikur þangað til alþingiskosningar fara fram hér á landi sem verða laugardaginn 25. september og þessa dagana eru stjórnmálaflokkarnir að þétta raðirnar og kynna stefnumálin.

Sóttvarnaráðstafanir hafa áhrif á fundi helgarinnar en landsþing Viðreisnar sem hefst núna klukkan níu er haldið heima hjá þér eins og stendur á heimasíðu flokksins, það er rafrænt á zoom. Þar verður kosið um ályktanir málefnanefndar og stjórnmálaályktun og klukkan fjögur ávarpar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar fundinn sem er ætlað að móta stefnu flokksins fyrir kosningarnar. 

Vinstri græn halda framhaldslandsfund í dag sem verður fjarfundur og kosningafundur þar sem kosningaáherslur verða kynntar, kosið verður í stjórn og flokksráð. Katrín Jakobsdóttir formaður flytur opnunarræðu núna klukkan korter yfir tíu. Eftir hádegi fara fram almennar stjórnmálaumræður og síðar í dag kynna oddvitar kosningaáherslur flokksins og helstu baráttumál.

Fundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Reykjavík og á sex öðrum stöðum á landinu. Um er að ræða stefnumótunarfund formanna og flokksráðs undir yfirskriftinni Ísland, land tækifæranna. Þrjár hugveitur starfa fram að hádegi en klukkan hálftvö setur Bjarni Benediktsson formaður fundinn en þeirri ræðu verður streymt. Síðan ræðir fundurinn stjórnmálaályktun og áherslur flokksins fyrir kosningarnar.