Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lilja ætlar að óska eftir skýringum frá KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Lilja ætlar að óska eftir skýringum frá KSÍ

28.08.2021 - 18:43
Þetta gengur ekki lengur og það verða að eiga sér stað breytingar, segir Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra íþróttamála, sem ætlar að óska eftir skýringum frá Knattspyrnusambandi Íslands vegna þess hvernig tekið hefur verið á ofbeldismálum innan sambandsins. KSÍ hefur ekki tjáð sig um málið í dag en stjórnin hefur fundað í allan dag.

„Þetta er náttúrlega algjörlega ólíðandi og það þarf að uppræta þessa menningu,“ segir Lilja í samtali við fréttastofu.

Munt þú óska eftir upplýsingum frá KSÍ vegna málsins?  „Já, það mun ég gera og mér finnst mjög mikilvægt að við nálgumst þetta mál af mikilli festu og eins og ég segi, þetta bara gengur ekki lengur.“

Hvað finnst þér um að það sé reynt að gera þagnarskyldusamninga við þolendur sem hafa lent í ofbeldi af hálfu leikmanna?  „Það finnst mér mjög sérstakt, vægast sagt.

Telur þú að formanni eða stjórn KSÍ sé stætt að svo stöddu? „Stjórnin verður auðvitað að taka á þessu máli af mikilli festu. Það er alveg ljóst að það verða að eiga sér stað breytingar.“

Þórhildur Gyða Arnardóttir steig fram í viðtali við RÚV í gærkvöld þar sem lýsti ofbeldi af hálfu landsliðsmanns. Hún kærði árásina en málinu lyktaði með því að leikmaðurinn bað hana afsökunar og greiddi henni miskabætur. Önnur kona lenti í sambærilegri árás af hálfu sama leikmanns og var málið afgreitt á sama hátt.  

Raunar greindi Þórhildur Gyða einnig frá því að áður hafði KSÍ haft milligöngu um að stúlkunum tveimur yrðu greiddar miskabætur og að þær skrifuðu undir þagnarskyldusamning. Því hefðu þær hafnað. Samkvæmt heimildum voru þeim boðnar 300 þúsund krónur hvor.

KSÍ hafnar því að lögmaður á vegum sambandsins hafi haft samband við Þórhildi og beðið um þagnarskyldu en hún segist standa við frásögn sína. 

Stjórn KSÍ hefur setið á fjarfundi í allan dag og má reikna með að umræðuefnin séu mörg.  Flest snúa að hegðun leikmanna íslenska karlalandsliðsins utanvallar og viðbrögð sambandsins við þeim - til að mynda mál Gylfa Þórs Sigurðssonar sem sætir lögreglurannsókn í Englandi en hvorki forysta KSÍ né landsliðsþjálfarar hafa viljað tjá sig um hans mál. 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Vill að hlutaðeigandi hjá stjórn KSÍ „axli ábyrgð“

Íþróttir

Maraþonfundur hjá stjórn KSÍ

Íþróttir

Ætlar að ræða við Guðna - stjórn KSÍ á Teams-fundi

Íþróttir

Segir lögmanninn hafa verið á vegum KSÍ