Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lögreglumenn fóru austur í gærkvöldi til rannsókna

Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan á Austurlandi skaut og særði vopnaðan mann á Egilsstöðum í gærkvöldi. Enginn lögreglumaður varð fyrir skoti. Maðurinn var fluttur á Landspítalann til aðhlynningar. Lögreglan var kölluð út laust eftir klukkan tíu í gærkvöld eftir að skothvellir heyrðust. Að sögn sjónarvotta tók nokkurn tíma fyrir lögreglu að yfirbuga manninn. Þeirri atburðarás lauk með því að maðurinn var skotinn. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir að lögreglumenn hafi verið sendir austur í gærkvöldi. 

„Héraðssaksóknari tók strax við rannsókn málsins strax í gærkvöldi. Það er gert ráð fyrir því í lögunum að þegar svona atvik eiga sér stað að þá sé það þetta embætti sem rannsaki þau,“ segir Kolbrún. 

Hafið þið sent mannskap austur til að gera rannsókn þar?

„Það fór strax í gærkvöldi já, starfsfólk héðan og frá tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknin er bara á frumstigum þannig að við getum ekki tjáð okkur frekar,“ segir Kolbrún. 

Hver eru næstu skref?

„Rannsóknin er að fara af stað. Við erum bara að ná utan um þetta og svo eins og í öðrum málum þá eru það skýrslutökur og svo framvegis sem eiga sér stað. Ég get í rauninni ekki sagt neitt meira á þessu stigi,“ segir Kolbrún.

Embætti héraðssaksóknara sendi fréttatilkynningu frá sér um níuleytið í morgun:

Héraðssaksóknari hefur til rannsóknar atvik sem átti sér stað á Egilsstöðum í gærkvöldi, þar sem lögregla skaut og særði vopnaðan mann. Starfsmenn héraðssaksóknar og tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu flugu til Egilsstaða strax í gærkvöldi og er rannsókn málsins á frumstigi. Maðurinn sem særðist var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en ekki er hægt að gefa frekari upplýsingar um ástand hans að svo stöddu.