Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Guðni: Engin tilkynning um kynferðisbrot á borð KSÍ

Guðni: Engin tilkynning um kynferðisbrot á borð KSÍ

27.08.2021 - 10:23
Engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hafa komið inn á borð Knattspyrnusambands Íslands, að sögn Guðna Bergssonar, formanns sambandsins. Hann segir í Kastljósi að sambandið taki allar ásakanir um kynferðisbrot innan knattspyrnuhreyfingarinnar alvarlega. 

KSÍ hefur verið sakað um að þagga niður kynferðisbrotamál innan hreyfingarinnar, í kjölfar þess að fyrrverandi landsliðsmaðurinn Gylfi Sigurðsson var handtekinn í Englandi, sakaður um kynferðisbrot gegn barni.

Gagnrýnin hefur komið fram á samfélagsmiðlum, sem og í greinum Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, formanns jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, í fjölmiðlum, þar sem hún segir að sambandið hafi sent körlum þau skilaboð að hægt sé að beita konur miskunnarlausu ofbeldi án nokkurra áhrifa á velgengni og án þess að þeir þurfi að axla ábyrgð.

Guðni telur þessa gagnrýni ómaklega, og segir að KSÍ hafi rýnt alla sína ferla strax eftir fyrstu #metoo-bylgjuna.

„Okkur er mjög umhugað um öryggi okkar iðkenda og almennings og hegðun okkar iðkenda gagnvart umhverfinu. Við höfum vissulega ekkert farið varhluta af þeirri umræðu sem hefur verið upp á síðkastið og undanfarin ár, við tökum mið af því, en við verðum að fá einhvers konar tilkynningu eða eitthvað slíkt, frá vitnum eða þolendum, og ef það gerist gætum við þess að þolandinn fái ákveðna aðstoð og hjálp og við tökum á því af ábyrgð og festu, og við stöndum svo sannarlega gegn öllu ofbeldi, ekki síst kynbundnu og kynferðisofbeldi, við gerum það,“ segir Guðni.

Hafa svona mál komið inn á borð hjá ykkur?

„Ekki með formlegum þætti, en við höfum verið meðvituð núna nýverið um umræðu á samfélagsmiðlum, en við höfum ekki fengið kvörtun eða ábendingu um að einhver tiltekinn hafi gerst sekur um kynferðisbrot,“ segir Guðni Bergsson.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Yfirlýsing KSÍ: KSÍ getur ekki tjáð sig um einstök mál

Innlent

Fer hörðum orðum um KSÍ vegna hópnauðgunarmáls