Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stafræn ökuskírteini eiga að virka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stafræn ökuskírteini eru tekin gild við kosningar. Þetta fæst samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vakti athygli á því á Facebook-síðu sinni að honum hefði verið vísað frá þegar hann hugðist greiða atkvæði utan kjörfundar í Smáralind í dag, þar sem hann var aðeins með stafrænt ökuskírteini á sér.

Björn staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir að hann hafi verið beðinn um eitthvert annað skírteini með nafni og mynd. Sem hann var ekki með.

Fréttastofa bar þetta undir dómsmálaráðuneytið. Samkvæmt svörum frá ráðuneytinu er þetta ekki samkvæmt verklagi. Taka á stafræn ökuskírteini gild. 

Fulltrúar ráðuneytisins brugðust skjótt við og þegar fréttastofa ræddi við þá á ný um hálftíma síðar var búið að hnykkja á því við kjörstjóra, þar á meðal starfsmenn í Smáralind.

Fréttastofu er ekki kunnugt um fleiri sem hefur verið vísað frá á þessum forsendum, en veit til þess að fyrr í vikunni hafi gengið greiðlega að kjósa í Kringlunni með stafrænt ökuskírteini eitt skilríkja.

Nokkur umræða hefur verið um hve auðvelt er að falsa stafræn skilríki sem líta nær alveg út eins og ósvikin. Þessu hafa skemmtanaþyrst ungmenni tekið fagnandi og þeysast um skemmtistaði með heimatilbúin skilríki tvítugra.

Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands sem sér um útgáfu skilríkjanna, sagði í samtali við fréttastofu í síðasta mánuði að unnið sé að hubúnaðarleið til að skanna skírteinin sem eigi eftir að einfalda sannprófun.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV