Framsókn eini miðjuflokkurinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjárfesting í fólki er yfirskrift kosningaáherslna Framsóknarflokksins fyrir komandi kosningar. Þær voru kynntar á fundi á Hilton Nordica í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, segir að mikill árangur hafi náðst í breiðu ríkisstjórnarsamstarfi. „Þegar litið er yfir sviðið þá virðumst við vera eini miðjuflokkurinn. Miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi,“ sagði formaðurinn.

Frítekjumörk verði hækkuð

Framsókn vill ráðast í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks með sambærilegum hætti og gert hefur verið með málefni barna. Flokkurinn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Samkvæmt lögum mega opinberir starfsmenn aðeins vinna til sjötugs.

Framsókn lofar einnig 60 þúsund króna frístundastyrk úr ríkissjóði með hverju barni. Mörg sveitarfélög greiða slíka styrki.

Flokkurinn vill að frítekjumarkið lífeyrisgreiðslna hækki í skrefum. Frítekjumark er sú fjárhæð sem fólk getur fengið greitt úr lífeyrissjóði án þess að það skerði grunnlífeyri, sem greiddur er af ríkinu – ekki lífeyrissjóði.

Þá telur flokkurinn að þrepaskipta eigi tryggingagjaldi, þannig að lítil og meðalstór fyrirtæki greiði lægra gjald en stórfyrirtæki.

Opinn fyrir einkarekstri

Flokkurinn vill skoða hvort tilefni er til aukins einkareksturs innan heilbrigðiskerfisins. Skoða þurfi þær aðgerðir sem skila bestum árangri á sem skjótastan máta. Gera þurfi átak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga og virkni þeirra og ætlar að stytta biðlista eftir greiningarúrræðum. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV