Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vindorka sjálfsögð viðbót við orkukosti landsins

25.08.2021 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Samorka
Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, segir vindorku sjálfsagða viðbót við orkukosti sem nýttir séu á landinu í dag. Þá hnýta samtökin í rammaáætlun og leggja til að nýju fyrirkomulagi verði komið á.

 

Á fundi Samorku, sem haldinn var í aðdraganda alþingiskosninga, voru áherslur samtakanna útlistaðar. Páll Erland, framkvæmdastjóri, kynnti áherslurnar. Kallað er eftir nýju og skilvirku fyrirkomulagi þar sem alvarlegir ágallar séu á framkvæmd rammaáætlunar.

„Góð lagaumgjörð er einnig forsenda þess að orku- og veitufyrirtæki landsins nái að sinna grunnþjónustu sem samfélagið byggir á.“ 

Samorka kallar eftir að áætlanir og ákvarðanir stjórmálamanna taki mið af orkustefnu Íslands. Halda þurfi samkeppnisforskoti landsins hvað varði græna orku.

Vindorka sé sjálfsögð viðbót við orkukosti landsins og setja þurfi regluverk sem liðki fyrir hagnýtingu vinds. Setja skuli vatnsvernd í forgang, og leysa þurfi úr flöskuhálsum í flutnings- og dreifikerfum rafmagns á landinu.

Orkuskipti í samgöngum séu stærsta tækifærið til að minnka útblástur verulega, svo standast megi skuldbindingar í loftslagsmálum.

 „Um leið eru þau dauðafæri til að verða hundrað prósent sjálfbær í orkuþörf landsins. Í stað þess þarf græna orkan að koma í stað jarðefna eldsneytis,“ sagði Páll Erland.

 

Andri Magnús Eysteinsson