Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leituðu villtra ferðamanna við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Björgunarsveitin Þorbjörn var kölluð út klukkan hálf ellefu í gærkvöldi vegna ferðamanna sem höfðu villst nærri gosstöðvunum á Fagradalsfjalli.

Vel gekk að koma fólkinu, sem var vel útbúið og vel klætt, niður af fjallinu og til byggða. Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar segir að reglulega þurfi að grennslast um göngufólk í þokunni.

„Þau voru vel útbúin til ferðalags, gölluð góðum göllum, skóm og með ljós en í svona þoku þarftu að hafa eitthvað til að leiðbeina þér eins og GPS tæki,“ segir Bogi.

Hann segir að reglulega þurfi að leita að fólki í þokunni. Yfirleitt hafi það, líkt og fólkið í gær, ekki villst langt af leið.

„Það detta eftirgrennslanir inn, oftast ekkert langt frá gönguleiðinni. Við þekkjum svæðið og erum vel kortlögð um hvert fólk labbar ef það villist. Það er hugmynd um að fara að setja ljós á leiðina, sem blikka á um hundrað metra millibili,“ segir Bogi.

Bogi segir þokuna mikla í Grindavík.

„Maður upplifir sig bara hérna eins og maður búi í svarthvítri bíómynd. Maður bíður eftir gæjanum með píanóið og textanum í hvíta rammanum við hliðina á sér. Það er bara allt grátt hérna í Grindavík,“ segir Bogi Adolfsson. 
 

 

Andri Magnús Eysteinsson