Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hafa þegar veitt 80 börnum aðstoð vegna skólabyrjunar

25.08.2021 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson
Sjálfboðaliðar og starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar standa í ströngu þessa dagana við úthlutun til efnalítilla foreldra í byrjun skólaársins. Þegar hafa um áttatíu börn fengið aðstoð og segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, það sína tilfinningu að fleiri komi á morgun, en þá verður úthlutað frá klukkan 13 til 15.

„Það sem við erum að gera núna þegar skólinn hefst er að aðstoða fólk við að fá það sem það fær ekki í skólanum. Þetta eru til dæmis skólataskan og íþróttafötin. Það er úlpan eða skórnir og það sem þarf á haustin þegar skólar eru að byrja,“ segir Vilborg.

Þegar hafa verið tveir úthlutunardagar og hafa um áttatíu börn fengið aðstoð. Hundrað og tuttugu börn fengu aðstoð í fyrra. „En ég held að til dæmis dagurinn á morgun verði fjölmennari, það er mín tilfinning.“ Fólk komi frekar eftir að skólinn sé byrjaður. „Þannig að ég held að þetta verði ekki færri en í fyrra,“ segir hún.

Fólk á lægstu launum meðal þeirra sem leita aðstoðar

Meðal þeirra Íslendinga sem leita aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar er það einkum fólk á lægstu launum, á örorkubótum og einstæðir foreldrar. Meðal innflytjenda eru það þeir sem eru á lægstu launum eða þeir sem fá framfærslu hjá félagsþjónustum sveitarfélaga sem eru fjölmennastir. Vilborg bendir á að innflytjendur eigi oft fáa eða enga að hér á landi. „Þú ert ekki að fá gömlu úlpuna frá frænku eða einhverja skólatösku notaða frá öðrum. Þú ert voðalega einn,“ segir hún um stöðu sumra innflytjenda. 

Mjög bagalegt að geta ekki útvegað tölvur

Það eru ekki aðeins grunnskólanemendur og foreldrar þeirra sem fá aðstoð í skólabyrjun heldur líka framhaldsskólanemar. Þeir fá aðstoð við að greiða skólagjöld, skólabækur og annað sem þarf til að stunda námið. „En þar er stærsti vandinn okkar í dag skortur á fartölvum því að það eru svo margir framhaldsskólar sem að krefjast þess, það er eiginlega algjör þörf á því að framhaldsskólanemar eigi tölvu, og okkur vantar þær til að geta gefið áfram.“ Eins og staðan er núna er engin tölva til taks til að gefa framhaldsskólanemum og segir Vilborg það mjög bagalegt. 

Úthlutun er hjá Hjálparstarfi kirkjunnar á neðri hæð Grensáskirkju við Háaleitisbraut í Reykjavík. Einnig er veitt aðstoð vegna listnáms, íþrótta og tómstundastarfs.