Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipverjar Heinaste ekki fengið krónu vegna uppsagnar

24.08.2021 - 21:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hópur skipverja á togaranum Heinaste ætlar að leita til dómstóls í Namibíu til að fá þá peninga sem gerðardómur hafði gert útgerðarfélaginu ArticNam að greiða þeim vegna uppsagnar. ArticNam er í eigu Samherja og þriggja namibískra félaga. Íslenskir stjórnendur félagsins eru sagðir hafa sent frá yfirlýsingu þar sem þeir segjast hafa frétt af því í fjölmiðlum að gerðardómur hefði komist að niðurstöðu í máli skipverjanna.

Þetta kemur fram á namibíska fréttamiðlinum New Era Live.  Skipverjunum var sagt upp störfum í desember 2018 og voru aðrir ráðnir tímabundið í þeirra starf.  Þeir fengu hins vegar ekki greiddan uppsagnarfrest og leituðu því til gerðardómsins til að fá tjón sitt bætt.

Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ArticNam bæri að greiða skipverjunum 1,8 milljónir namibískra dollara fyrir lok júní. Skipverjarnir hafa ekki fengið krónu og ætla því að láta reyna á niðurstöðu gerðardómsins fyrir dómstólum.

Phillip Munenguni, sem hefur rekið mál sjómannanna fyrir hönd verkalýðsfélags þeirra, segir engan frá ArticNam hafa sett sig í samband við sjómennina til að ræða við þá um hugsanlegar greiðslur og hvernig þeim yrði háttað.

Fram kemur á vef New Era Live að íslenskir stjórnendur félagsins hafi sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við málið í byrjun mánaðarins. Þar kemur fram að þeir hafi eingöngu heyrt af niðurstöðu gerðardómsins í fjölmiðlum. 

 

Heinaste var  kyrrsettur vegna rannsóknar yfirvalda í Namibíu á Samherjaskjölunum.  Þegar kyrrsetningunni var aflétt var togarinn seldur til félagsins Tunacor Fisheries.

Virgillo De Sousa, talsmaður þeirra namibísku félaga sem eiga 51 prósent eignarhlut í ArcticNam, hefur sagt að þeir standi heilshugar með sjómönnunum.  Þeir standi sjálfir í deilum við íslensku eigendurna um hvernig fyrirtækið var rekið og útiloki ekki lögsókn.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV