Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja að veiðar með dragnót verði óheimilar

23.08.2021 - 08:47
Mynd með færslu
 Mynd: Maarten Wijnants - Unsplash
Smábátasjómenn á Húsavík vilja að veiðar með dragnót verði óheimilar á Skjálfandaflóa. Þeir segja að það sé nauðsynlegt til verndunar fiskistofnum í flóanum.

Hrun í hrygningarstofni

Smábátasjómenn á Húsavík óska eftir að byggðarráð Norðurþings láti banna veiðar með dragnót á Skjálfanda vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem veiðarnar hafi á fiskistofna. Haukur Eiðsson smábátasjómaður segir svo komið að hrygningarstofn ýsu á Skjálfandaflóa sé alveg hruninn og stórtækar veiðar með dragnót hafi þar mikil áhrif.

„Við erum að tala um núna 300 tonna báta og þeir hamast bæði á hrygningarblettinum á vorin á þessum fjörðum og flóum hér og þetta er svo gríðarlegt afl og tíföld stærð miðað við hvað var,“ segir Haukur.

Óskar fundar með ráðherra

Á síðasta ári breytti sjávarútvegsráðherra reglugerð sem skyldaði dragnótarbáta til að halda sig innan ákveðinna svæða. Nú geta þessir bátar flakkað á milli veiðihólfa. „Þetta varð til þess að hér lágu fimm öflugustu dragnótarbátar landsins í allt fyrrahaust og útrýmdu ýsuhrygningarstofninum hér í Skjálfanda meðal annars, fóru langt með það,“ segir Haukur.

Í sumum flóum hafa sveitarstjórnir fengið samþykkt að lokað verði fyrir þessum stóru bátum og hafi netarallið komið mun betur út í þeim. Sveitarstjóranum í Norðurþingi hefur verið falið að koma á fundi með sjávarútvegsráðherra hið fyrsta til að fara yfir málið.

„Hvað svo sem kemur út úr því. En sem ráðherra hlýtur maður að vilja ganga þannig frá málunum að reyna að láta þetta eflast 
og okkur finnst ekkert menn vera að bregðast við til að reyna að hjálpa þessu,“ segir Haukur.