Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Play sækir um heimild til Bandaríkjaflugs

23.08.2021 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Geir Eyjólfsson - RÚV
Flugfélagið Play skilaði fyrir helgi umsókn til bandarískra flugmálayfirvalda um heimild til að hefja farþegaflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir umsóknina flókið verkefni en stefnt sé að því að hefja sölu á miðum á þessu ári.

Mikil vinna að baki

Það er bandaríski fjölmiðillinn airinsight segir frá þessu. Þar segir að flugfélagið stefni á að hefja flug milli Íslands og Bandaríkjanna strax næsta sumar. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir undirbúning umsóknarinnar hafa staðið yfir í töluverðan tíma en sé flókið verkefni. „Þetta var gríðarleg mikil og flókin vinna sem fór í þessa umsókn og flóknir hlutir sem þarf að útskýra.“ 

„Reksturinn stendur ekki og fellur með covid-tölum

Birgir segir að flugfélagið hafi alltaf stefnt að því að hefja flug til Bandaríkjanna næsta sumar. Áætlað hafi verið að byrja reksturinn rólega og hefja fulla starfsemi næsta sumar. Birgir segir faraldurinn ekki trufla framtíðaráform félagsins. „Almennt séð er covid lítið að trufla okkur, við byrjuðum í júní og vissum að faraldrinum væri ekki lokið þá. Reksturinn stendur ekki og fellur með covid-tölum hvers dags. Við ætluðum að byrja rólega og fara á fullt næsta sumar.“

Miðasala á þessu ári

Birgir segir að nú taki bandarísk flugmálayfirvöld við umsókninni. „Við ætlum svo að byrja að selja miða í þetta flug strax á þessu ári og byrja að fljúga í vor.“ 

Flogið á austurströndina og Kanada

Hann vill ekki gefa upp áfangastaði en segir að horft sé til austurstrandar Bandaríkjanna og Kanada. Því má reikna með að flogið verði til New York og Boston hið minnsta. „Þetta eru þessar helstu borgir á austurströndinni. Við erum ekki að skoða flug til vesturstrandarinnar.“